Fyrsti þátturinn af ÁST verður frumsýndur í Sjónvarpi Símans í kvöld og af því tilefni leitaði matarvefurinn til fagurkerans og sælkerans Kolbrúnar Pálínu Helgadóttur, annars umsjónarmanns þáttanna og verkefnastýru hjá Árvakri, eftir hugmynd að fullkomnum mat þetta fimmtudagskvöldið yfir sjónvarpinu.
Kolbrún skellti í stórskemmtilega takópönnu sem hentar fyrir alla fjölskylduna. Rétturinn er þess eðlis að það má leika sér í allar áttir með að blanda saman hráefnum eftir smekk og nota það sem til er í ísskápnum. „Ég geri hana í mildara lagi þegar ég elda hana fyrir litla fólkið en gef svo aðeins í með chili og hvítlauk þegar um stærra fólkið er að ræða.“
Fljótleg og fjölskylduvæn takópanna
Aðferð: Steikið hvítlauk og chili upp úr olíu á pönnu. Bætið því næst hakkinu við og steikið vel og kryddið með takókryddi.
Hellið tómötum og baunum út í hakkið og leyfið því að malla aðeins.
Að endingu er rifinn ostur settur yfir hakkblönduna og honum leyft að bráðna aðeins.
Ef pannan er falleg er skemmtilegt að bera blönduna fram í henni, nú eða í fallegu fati.
Að þessi sinni notaðist ég við fajitas-pönnukökur en einnig er skemmtilegt að nota takóskeljar með þessum rétti.
Aðferð: Skerið tómatana í grófa bita. Skerið hvítlauk og chili smátt. Blandið þessu saman og stappið svolítinn fetaost saman við. Salt, pipar og kóríander eftir smekk.
Aðferð: Stappið avókadó með gaffli og kreistið safann vel úr límónunni yfir. Salt og pipar eftir smekk. Allt það meðlæti sem hugurinn girnist eða leynist inni í ísskáp; rúkóla, mangó, paprika, gúrka, ananas eða annað ferskt og gott.
Sýrður rjómi er nauðsynlegur með þessum mat sem og góð takósósa. Og að sjálfsögðu nachos-flögur. Fyrir þá allra hressustu má svo bæta við sriracha-piparsósu.