Litlu kokkarnir á heimilinu þurfa líka sitt eldhús en IKEA kynnir nýtt leikfangaeldhús sem býður upp á fleiri möguleika en að baka brauð.
Eldhúsið kallast „Spisig“ og inniheldur vask, helluborð, skáp og ofn. Í þessari útfærslu er enginn örbylgjuofn eins og svo oft má sjá í krakkaeldhúsum, í staðinn er stór gluggi með gardínum. En það sem einkennir eldhúsið og gerir það svo skemmtilegt er að hér snýst allt um ímyndunaraflið. Ef eldhúsinu er snúið við er hægt að nota það sem dúkkuleikhús eða sem veitingastað eða verslun – krítartafla er á bakhliðinni þar sem krota má tilboð dagsins eða jafnvel útbúa verðlista.