Humarpítsa sem gleymist seint

mbl.is/María Gomez

Ef það er eitthvað sem getur ekki klikkað þá er það humarpítsa. Nei - annars. Humarpítsa er eitt af þessu sem er mjög auðvelt að klúðra og því ber að vanda vel til verka. Góð humarpítsa er nefnilega eitt það allra besta sem hægt er að fá sér og ef hún er almennileg þá sendir hún þig beina leið upp til himna.

Það er engin önnur en María Gomez á Paz.is sem á þessa uppskrift sem er framúrskarandi. Leynitrixið hér er sósuleysið en María sleppir henni alveg.

„Í stað hennar nota ég hvítlauksolíu sem ég geri úr mörðum hvítlauk, ólífuolíu og þurrkaðri steinselju. Klassi í gegn get ég sagt ykkur,“ segir María og útkoman er vel þess virði að prófa.

Humarpítsa sem gleymist seint

  • Deig frá Humlum að eigin vali, ég hef prófað bæði gróft og fínt í humarpítsuna og hvorttveggja var æði
  • 2 geiralausir hvítlaukar eða 6-8 hvítlauksrif marinn
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 tsk. þurkkuð steinselja
  • 1/2 box sveppir eða um 125 g
  • 1-1,5 bolli rifinn parmesan sem þið rífið sjálf, ekki kaupa þennan í boxunum
  • 1 poki rifinn pítsuaostur eða rifinn mozzarella ostur
  • 400-500 g humar, ég keypti frosinn í Bónus sem var skelflettur
  • Ferskt oregano (fæst í pakka eins og aðrar kryddjurtir eða í potti) notið helst ferskt
  • salt
  • Roasted garlic pepper (má sleppa en gerir rosa gott, fæst í Bónus)
  • Chili Explotion (má sleppa en fæst í Bónus)

Aðferð:

  1. Byrjið á að kveikja á ofninum á 200 C° blástur
  2. Gerið deigið klárt, mér finnst best að taka það úr pakkanum og hvolfa á bökunarplötu með nýjum bökunarpappír á og taka gamla pappann sem fylgdi pakkanum ofan af og henda
  3. Leyfið deiginu að standa á plötunni undir hreinu stykki meðan allt hitt er gert klárt
  4. Setjið svo ólífuolíu, marinn hvítlaukinn og steinselju í skál og leggið til hliðar
  5. Ef þið eruð ekki búin að afþýða humarinn er allt í lagi að setja hann í sigti og láta sjóðandi heitt vatn renna á hann þar til hann er rétt afþýddur, en best er að vera búin að leyfa honum að þiðna í kæli yfir nótt
  6. Takið svo humarinn og setjið hann ofan á eldhúsbréf og þerrið af honum með meira eldhúsbréfi þar til mesti rakinn er farinn úr honum því annars verður pítsan rennandi blaut
  7. Rífið niður parmesan ostinn og skerið sveppina í sneiðar
  8. Stingið nú nokkur göt í botninn og forbakið í 5 mínútur
  9. Penslið svo pítsubotninn, vel yfir hann allan með hvítlauksolíunni og leyfið smá mörðum hvítlauknum að fylgja með, en þó ekki of miklu
  10. Dreifið næst rifna pítsuostinum yfir og setjið svo sveppina þar ofan á
  11. Raðið humrinum yfir sveppina og penslið létt yfir aftur með hvítlauksolíunni og kryddið með Roasted garlic pepper og örlitlu af salti
  12. Stráið svo að lokum rifna parmesan ostinum yfir allt og toppið með fersku oregano og Chili Explotion
  13. Bakið við 235°C á blæstri í 8-10 mín. eða þar til pítsan er orðin fallega gyllt
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert