Þið sem hafið velt því fyrir ykkur hvers vegna við höfum lítið heyrt frá Evu Laufeyju undanfarna mánuði getið loks andað rólega því komið hefur í ljós að það er mikið í vændum hjá Evu sem er þessa dagana að leggja lokahönd á nýja bók.
Um er að ræða hennar þriðju matreiðslubók, sem væntanleg er í verslanir í byrjun nóvember. Bókin hefur hlotið nafnið Í eldhúsi Evu og inniheldur uppáhaldsuppskriftir Evu sem eru yfir 100 talsins.
Eva hefur verið einn öflugasti matarbloggari og sjónvarpsstjarna landsins undanfarin ár en fyrsta bókin hennar kom út fyrir sex árum.
„Ég er heppin að hafa fengið að starfa við áhugamálið mitt undanfarin sjö ár og safnað mörgun uppskriftum og á mikið af uppskriftum sem ég hef ekki náð að birta og mér fannst tími til kominn að gefa út veglega, fallega og umfram allt girnilega matreiðslubók með mínum uppáhaldsuppskriftum. Forréttir, fordrykkir, súpur og brauð, pasta og pítsur, aðalréttir og að sjálfsögðu eftirréttir,“ segir Eva aðspurð um bókina.
Bókin inniheldur, eins og áður segir, yfir hundrað uppskriftir. „Ég get eiginlega lofað því að allir eigi eftir að finna eitthvað við sitt hæfi. Við tókum okkur tvær langar helgar í myndatökur og þetta var mikið fjör! Ljósmyndari bókarinnar er Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og hún er algjör snillingur, hún áttaði sig strax á stemningunni sem mig langaði að fanga og ég gæti ekki verið ánægðari með myndirnar. Get eiginlega bara alls ekki beðið eftir að fá fyrsta eintakið í hendurnar en bókin mín kemur út í byrjun nóvember,“ segir Eva.