Lítil hreyfing og of margar hitaeiningar er ekki góð blanda. Þetta kannast margir við sem starfa bak við tölvuskjáinn allan daginn. Þá er gott að hafa hugfast hvað það er sem við leggjum okkur til munns.
Hitaeiningagildrurnar sjö:
- Vínarbrauð er gott með kaffinu en um 50 g af vínarbrauði innihalda 214 hitaeiningar. Eitt vínarbrauðsstykki inniheldur því langt um meira og þú þarft að ganga um 2 tíma til að brenna því.
- Kaffibolli eða te með mjólk og 2 tsk. af sykri inniheldur 62 hitaeiningar, en um hálftíma ganga ætti að „dekka“ það. Ef þú sleppir sykrinum ertu aftur á móti í mun betri málum.
- Hálfur lítri af gosi inniheldur um 215 hitaeiningar. Drekktu bara vatn í staðinn, þá er ekkert á samviskunni.
- Það er freistandi að grípa í súkkulaðistykki þegar orkan er lítil. Með litlum 50 g ertu að bæta 265 hitaeiningum í kroppinn – þannig að tveggja tíma göngutúr bíður þín til að losa þig við þau óþægindi.
- Croissant hljómar mjög saklaust og franskt. Það ilmar eins og smjör og er stökkt en samt mjúkt. Croissant sem vegur um 77 g geymir 297 hitaeiningar sem okkur langar engan veginn til að taka með okkur heim úr vinnunni.
- Nammipoki á skrifborðinu á það til að hverfa hratt þegar álagið í vinnunni er mikið. 85 g sælgætispoki geymir um 300 hitaeiningar sem mun kosta þig göngutúr í 2½ tíma.
- Rjómatertur eru vinsælar á vinnustöðum þegar einhver á afmæli. Í 100 g af slíkri tertu eru um 336 hitaeiningar. Bara fínt að hafa það bak við eyrað!