Er vond lykt heima hjá þér?

Við höfum oft glímt við vonda lykt á heimilinu, hvort sem um matarlykt, svita- eða tóbaksfnyk er að ræða. Hér eru nokkrar ráðleggingar um hvernig megi losna við súra lykt af heimilinu.

Niðurfallið
Klóaklykt er ekki sú sem við kjósum að hafa á heimilinu og í flestum tilvikum nægir að hella sjóðandi heitu vatni í niðurfallið. Það drepur bakteríur og fjarlægir sápurestar og hár í flestum tilvikum. Ef þetta virkar ekki má setja hálfan bolla af natroni í niðurfallið ásamt einum bolla af ediki. Leyfðu efnunum að byrja að freyða og helltu þá sjóðandi heitu vatni yfir. Bíddu í 5 mínútur þar til þú skolar með köldu vatni.

Ísskápurinn
Ef ísskápurinn lyktar í hvert sinn sem þú opnar hann, skaltu byrja á því að þrífa hann með vatni, ediki og sítrónusafa. Eftir það getur þú sett malað kaffi í glas og inn í ísskáp – það ætti að taka lyktina ef einhver er eftir.

Súrir skór
Settu skóna inn í frysti yfir nótt, þá deyja bakteríurnar sem orsaka lyktina. Þú getur líka stráð lyftidufti ofan í hvorn skó og látið standa yfir nótt - og ryksugað upp daginn eftir.

Sveitt íþróttaföt
Íþróttaföt eiga það til að lykta eftir þvott. Næst þegar þú ert í þessari aðstöðu með fötin  skaltu leggja þau í bleyti. Blandaðu ediki og vatni saman til helminga og leyfðu fötunum að liggja þar í nokkra tíma. Þvoðu svo fötin samkvæmt leiðbeiningum.

Tóbakslykt
Stofan getur lyktað í marga daga eftir eitt gott partí þar sem reykingar voru leyfðar innandyra. Settu edik í skálar og láttu standa viðsvegar um íbúðina. Síðan er eina trixið að lofta út nokkrum sinnum yfir daginn með gegnumtrekk.

Matarbræla
Þú sleppur að sjálfsögðu við alla brælu ef þú kveikir á viftunni þegar þú eldar. En ekki opna glugga á sama tíma – loftaðu frekar út þegar þú ert búin/n að elda. Það er líka ágætis ráð að leyfa viftunni að ganga í nokkrar mínútur eftir að þú hefur slökkt undir hellunum. Munið svo að þrífa viftuna, það gerir gæfumuninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert