Þær eru ómissandi, ef svo mætti segja – súru sítrónurnar sem bragðbæta matinn en vinna líka á heimilisþrifunum. Þeim eru engin takmörk sett hvar þær koma ekki til sögu, því þær fjarlægja ryð á gömlum hnífum og jafnvel bletti á fötum svo eitthvað sé nefnt.
Þrífðu ísskápinn
Ef ísskápurinn þinn er farinn að lykta þá skaltu blanda sítrónusafa út í vatn og þrífa hann svo allan að innan. Gætir jafnvel sett sítrónuvatnið í brúsa og spreyjað á skápinn.
Örbylgjuofn
Settu skál með sítrónuvatni inn í örbylgjuofninn og stilltu á hæsta hita í nokkrar mínútur. Láttu skálina standa inn í ofninum án þess að opna strax þannig að rakinn dreifi sér. Taktu því næst rakan klút og þurrkaðu ofninn að innan.
Losaðu þig við vonda lykt
Jafnvel þó að þú hafir tæmt ruslið getur setið vond lykt eftir í tunnunni. Þá kemur sítrónuvatn aftur til bjargar. Spreyjaðu tunnuna að innan og leyfðu vatninu að standa í nokkrar mínútur áður en þú þurrkar af.
Blettir burt með sítrónum
Kannastu við að fá t.d. bletti undir handarkrikana á skyrtum og bolum? Nuddaðu næst blettinn með sítrónu áður en þú þværð flíkina og bletturinn mun hverfa.
Kalkið burt
Kalkblettir eru ekki neitt sérstaklega hrifnir af sítrónum. Bleyttu upp í sturtuklefanum þínum og nuddaðu svo flísar og fúgur með sítrónu. Láttu standa í nokkrar mínútur áður en þú skolar aftur með vatni. Sama gildir um krana og vask.
Fjarlægðu ryð með sítrónu og salti
Ef hnífarnir þínir eru komnir með ryðbletti er engin ástæða til að væla yfir því. Nuddaðu þá með sítrónusafa og salti eða láttu þá liggja í sítrónusafa í 5 mínútur áður en þú þværð þá eins og venja er.