Hanna Hlíf grænkeri málar stórkostlegar matarmyndir

Hanna Hlíf, listakona og einn af höfundum bókarinnar Eldhús grænkerans, …
Hanna Hlíf, listakona og einn af höfundum bókarinnar Eldhús grænkerans, málar hreint út sagt stórkostlegar myndir af sætum syndum. mbl.is/Hanna Hlíf

Þegar myndlist og matur tvinnast saman verður útkoman girnileg! Einn af höfundum bókarinnar Eldhús grænkerans sem kom út hér um árið er Hanna Hlíf. En hún er ekki bara listfeng í eldhúsinu heldur líka með pensilinn á lofti. Matarmyndir sem hún málar hafa vakið stórfenglega lukku á samfélagsmiðlunum og það ekki að ástæðulausu. Þær eru jafn girnilegar og maturinn sem hún eldar.

Myndirnar sem um ræðir vöktu athygli okkar, en Hanna Hlíf hefur birt reglulega eina og eina mynd af málverkum sínum á Facebook-síðu sinni. En hvernig kom þetta til? „Ég starfaði um tíma sem gestapenni hjá tímaritinu Gestgjafanum og rakst á bunka af blöðum sem ég hafði gert uppskriftir fyrir – og þeim fylgja fallegar ljósmyndir. Þá kviknaði hugmynd um að mála matinn minn, enda er ég alltaf að hugsa um mat. Þetta varð því eðlileg tenging við það sem mér finnst einna skemmtilegast að gera, að mála, elda og baka.“

Hanna Hlíf starfar einnig hjá Listasafni ASÍ og því í skapandi umhverfi allan daginn. Hún hefur alltaf haft mikla nautn af því að vinna með höndunum, sauma, prjóna, mála – eða allt það sem hún getur „týnt“ sjálfri sér í. Myndirnar sem hún málar í dag eru unnar með olíu og akríl og í dulúðlegum litum sem kitla bragðlaukana.

Uppskriftir fylgja málverkunum
Listakonan er með vinnustofu heima fyrir og hefur því tök á að grípa í pensilinn þegar hugmyndirnar og sköpunarkrafturinn hellist yfir hana. Hanna Hlíf bakar flestallar kökurnar sem hún málar og bætir þá við auka „blingi“ til að gera verkin skemmtilegri. „Ég leita að uppskriftum víða og þá líka ljósmyndum. Eftir að hafa málað mynd af kræsingum fylgja uppskriftirnar með myndinni.“ Aðspurð segist hún sjálf elska góða marengstertu eða pavlovu með miklum rjóma, eggjavanillukremi og ferskum ávöxtum. Við tökum undir með Hönnu Hlíf í þessu máli.

Eldhús grænkerans spornar við matarsóun
Eins og áður segir er Hanna Hlíf einn af höfundum bókarinnar Eldhús grænkerans – falleg matreiðslubók fyrir þá sem elska hollan og góðan mat. Eldhús grænkerans er alltaf með spennandi verkefni á borðunum og tekur að sér stórar sem smáar veislur um land allt. En á síðum grænkerans á Facebook og Instagram hefur Hanna Hlíf reynt að vera dugleg að setja inn nýtt efni og heilræði gegn matarsóun sem er henni mikið hjartansmál.

Hægt er að setja sig í samband við Hönnu Hlíf og skoða málverkin, en hún fær reglulega pantanir um að gera sérstakar tertur sem tengjast æskuminningum fólks. Sýning mun vera haldin á verkum listakonunnar í Hannesarholti í janúar á næsta ári og eflaust einhverjir sem munu mæta á fastandi maga og þá leyfa hungrinu að taka yfir með kaupum á fallegu málverki.

Peruterta af bestu gerð með frosting og saltkaramellu.
Peruterta af bestu gerð með frosting og saltkaramellu. mbl.is/Hanna Hlíf
Fallegir litir í þessu málverki.
Fallegir litir í þessu málverki. mbl.is/Hanna Hlíf
Karamellukaka með ferskum fíkjum og hvítu frosting-kremi, namm!
Karamellukaka með ferskum fíkjum og hvítu frosting-kremi, namm! mbl.is/Hanna Hlíf
Ljúffengar lummur með plómum og hnetum, já takk.
Ljúffengar lummur með plómum og hnetum, já takk. mbl.is/Hanna Hlíf
mbl.is/Hanna Hlíf
Kaka með ætilegum blómum og nóg af þeyttum rjóma.
Kaka með ætilegum blómum og nóg af þeyttum rjóma. mbl.is/Hanna Hlíf
Litlar pavlovur með þeyttum rjóma og ferskum berjum.
Litlar pavlovur með þeyttum rjóma og ferskum berjum. mbl.is/Hanna Hlíf
mbl.is/Hanna Hlíf
mbl.is/Hanna Hlíf
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert