Ómótstæðilegur kjúklingur með stökkri skorpu

Kjúklingur í hrökkbrauðskrösti með sætkartöflumús og nóg af parmesan - …
Kjúklingur í hrökkbrauðskrösti með sætkartöflumús og nóg af parmesan - gjörið svo vel. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Ef einhver var að óska eftir ekta „comfort food” í kuldanum, þá er það þetta hér! Hér er hrökkbrauð með sjávarsalti og kryddjurtum notað sem brauðrasp og gefur réttinum þetta einstaka bragð. Við fengum þessa uppskrift að láni hjá Hildi Rut sem segir hrökkbrauðið vera frá Sigdal en þeir eru einnig með glútenlaust hrökkbrauð sem hentar fullkomlega fyrir þá sem eru með glútenóþol.

Hildur Rut gaf út matreiðslubók nú á dögunum, ásamt fimm öðrum snilldar matarbloggurum landsins. Bókin er stútfull af vinsælustu uppskriftum matgæðinganna og er einstaklega fallega eldhúsbók sem enginn má láta framhjá sér fara. En þess má einnig geta að Hildur Rut sá um hönnun og umbrot bókarinnar ásamt því að taka allar ljósmyndir í bókinni fyrir utan þær matarmyndir sem tilheyra öðrum höfundum.

Kjúklingur í parmesan- og hrökkbrauðskrösti með sætkartöflumús (fyrir 3-4)

  • 4 Sigdal hrökkbrauð með jurtum og sjávarsalti
  • 2-3 msk fersk steinselja
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • Pipar
  • 1 egg
  • 3 kjúklingabringur
  • 20 g smjör, skorið í litla teninga
  • 1 dl rjómi
  • 1 bóndabrie

Toppa með:

  • Rifinn parmesan eftir smekk
  • Fersk steinselja eftir smekk
  • Sætkartöflumús
  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 dl rjómi
  • 20 g smjör
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Blandið saman hrökkbrauðinu, steinseljunni, parmesan og pipar í matvinnsluvél svo úr verður rasp. Ég nota litla matvinnsluvél sem fylgir töfrasprotanum mínum. Einnig er hægt að setja allt saman í poka og rúlla svo yfir með kökukefli.
  2. Dreifið raspinum á disk og pískið egg í skál.
  3. Skerið kjúklingabringurnar í tvennt langsum þannig að úr verða tvær þunnar sneiðar. Veltið þeim upp úr egginu og síðan raspinum.
  4. Smyrjið eldfast form með smjöri og setjið kjúklingabringurnar ofan í það.
  5. Skerið smjör í litla teninga og dreifið ofan á bringurnar.
  6. Bakið í 25 mínútur við 190°C. Á meðan er gott að útbúa sætkartöflumúsina.
  7. Skerið bóndabrie í sneiðar. Hellið rjóma yfir bringurnar og dreifið ostinum yfir. Bakið áfram í 5-7 mínútur.
  8. Toppið svo með ferskri steinselju og parmesan osti.
  9. Berið fram með sætkartöflumúsinni. 

Sætkartöflumús:

  1. Skrælið hýðið af sætu kartöflunni og skerið í bita.
  2. Sjóðið hana í 15-20 mínútur eða þar til hún er orðin mjúk og fullelduð.
  3. Sigtið vatnið frá kartöflunni.
  4. Stappið kartöfluna vel saman við rjómann, smjörið, saltið og piparinn.
Brie osturinn setur punktinn yfir i-ið!
Brie osturinn setur punktinn yfir i-ið! mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
Bókin „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ kom út um daginn …
Bókin „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ kom út um daginn og er dásamleg eldhúsbók til að glugga í og næla sér í gómsætar uppskriftir. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert