Það er fátt yndislegra en ást tveggja einstaklinga sem ákveða að gifta sig – en fyrst af öllu er það bónorðið sem þarf að bera upp. Par nokkurt sem trúlofaði sig á KFC-stað í Suður-Afríku átti alls ekki von á að þeirra yrði leitað.
Kona að nafni Kateka Malobola var á kjúklingastaðnum KFC þegar hún rekur augun í mann á næsta borði fara niður á skeljarnar og biðja konuna sína um að giftast sér – en hún brestur í grát og segir „já“. Myndir og video af parinu enduðu með að KFC birti atburðinn á síðunni sinni.
Skyndilega fóru framlög að berast frá alls kyns fyrirtækjum víðs vegar um landið – allt til þess að parið gæti átt einstakan brúðkaupsdag. Eitt fyrirtækið bauðst til að gefa brúðarkjól, annað bauð köku, einnig skartgripi, paranudd og jafnvel parameðferð hjá sambandsráðgjafa til að sjá til þess að sambandið muni endast að eilífu.
Stórfyrirtæki á borð við Coca-Cola, Audi og Sony gáfu sitt og einhver bauðst til að gefa þeim hús! En vandinn var sá að enginn vissi hvaða fólk þetta væri svo netheimarnir fóru á hliðina í leit að parinu, sem hafði ekki hugmynd um að líf þeirra væri að fara breytast.
Það leið ekki að löngu þar til KFC var komið með nöfnin þeirra í hendurnar, Hector og Nonhlanhla, og tilkynnti á Twitter að parið grunaði ekki að þau væru „eftirlýst“ og allar þær gjafir sem til þeirra höfðu borist.
Parið er búið að vera saman síðan 2010 og giftu sig 2012, en höfðu aldrei efni á að halda veislu né kaupa giftingarhringa. Þess vegna ákvað Hector þennan dag að gera eitthvað sérstakt fyrir konuna sína og bað hennar á ný með lítilli gjöf sem hann keypti og færði henni ásamt kjúklingamáltíðinni.
KFC í Suður-Afríku hefur lofað að leyfa viðskiptavinum sínum að fylgjast með framgöngu mála því það er brúðkaup í vændum.