Þessi frábæri takóréttur er enn ein bragðlaukssprengjan frá Hildi Rut og með hráefni sem margir hafa eflaust aldrei áður keypt – butternut squash.
Hildur Rut segir: „Butternut squash er afbrigði af graskeri en að mínu viti er ekki til neitt íslenskt heiti yfir það. Það er stútfullt af vítamínum og geymsluþolið getur verið nokkrir mánuðir. Graskerið er mjög ljúffengt og passar vel í marga rétti. Þessi uppskrift er einföld og ómótstæðilega góð. Linsubaunirnar passa mjög vel með graskerinu en svo er líka gott að setja svartar baunir eða pintobaunir í staðinn. Einnig er auðvelt að gera réttinn alveg vegan og setja vegan majónes í staðinn fyrir venjulegt.“
Takó eins og þú hefur aldrei smakkað það (fyrir 2-3)
- Tortillur, stærð medium
- lítið butternut squash-grasker
- ólífuolía
- kummín
- cayennepipar
- kóríanderduft
- salt og pipar
- 1 dl rauðar linsubaunir
- 2 avókadó
- safi úr límónu
- ferskt kóríander, smátt skorið (má sleppa)
- ¼ hvítkálshaus
- 4 msk. majónes
- 1 tsk. sambal oelek
Aðferð:
- Skerið hýðið af graskerinu og skerið það í litla bita.
- Setjið graskerið í eldfast mót og dreifið ólífuolíu yfir. Kryddið með kummíni, cayennepipar, kóríanderdufti, salti og pipar og hrærið saman.
- Bakið við 190°C í 25-30 mínútur eða þar til graskerið er orðið mjúkt. Hrærið 1-2 sinnum í því á meðan það er að bakast.
- Sjóðið linsubaunirnar á meðan graskerið er að bakast. Sjóðið þær í 2,5 dl vatni í 15-20 mínútur. Saltið og piprið.
- Hrærið majónes og sambal oelek saman. Skerið hvítkálið í mjóa strimla og hrærið við majónesblönduna.
- Stappið avókadóið. Kreistið yfir það smá safa úr límónu og saltið.
- Steikið tortillurnar upp úr ólífuolíu þar til þær verða stökkar. Passið að brenna þær ekki. Brjótið þær saman á pönnunni á meðan þær eru ennþá mjúkar.
- Fyllið tortillurnar með hrásalati, linsubaunum, avókadó og graskeri. Toppið svo með fersku kóríander.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir