Hreindýrabollur með brúnni sósu

Ljósmynd/Sirrý í Salt eldhúsi

Ef að þú býrð svo vel að eiga hreindýrahakk er upplagt að búa til þessar frábæru bollur sem Sirrý í Salt eldhúsi á heiðurinn að. Við mælum svo sannarlega með því að þið prófið því margir eru á því að hreindýrabollur séu eitt það besta sem hægt er að gæða sér á.

Hreindýrabollur með brúnni sósu

Bollur:

  • 500 g hreindýrahakk
  • 2 brauðsneiðar eða ¾ dl gott brauðrasp
  • 8-10 einiber, steytt
  • 1 tsk. heill allrahanda eða ½-3/4 tsk. duft
  • 12-14 þurrkaðar apríkósur, saxaðar smátt
  • 1 egg
  • 3 msk. rjómi
  • salt og nýmalaður pipar
  • 2 msk. olía til að steikja upp úr

Sósa:

  • 2 msk. olía
  • 1 laukur, saxaður
  • 2 ½ dl vatn + villikraftur
  • ¾ dl rjómi
  • e.t.v. örlítið af sósuþykki

Blandið öllu saman sem fer í bollurnar, það er gott að gera það í hrærivél með hræraranum, annars bara hnoða saman í skál. Mótið frekar litlar bollur. Steikið laukinn í olíu og setjið til hliðar á disk. Steikið bollurnar, helminginn í einu svo þær brúnist vel. Bætið lauknum aftur á pönnuna með bollunum. Hellið vatni og villikraft út á, látið suðuna koma upp, lækkið síðan og látið allt malla saman í 10-15 mín, fer eftir stærð á bollum. Bætið rjómanum út í, sjóðið saman og smakkið til með salti og pipar. Þykkið með sósuþykki. Berið fram með soðnum kartöflum, rabarbarasultu og heimalöguðum rauðrófum.

Heill allrahanda fæst í Melabúð

Ljósmynd/Sirrý í Salt eldhúsi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert