Bananabrauð með haframjöli og súkkulaði

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér erum við að tala um hreinræktaða veislu gott fólk því ef þið hélduð að venjulegt bananabrauð væri gott þá eigið þið gott í vændum. Þessi uppskrift tekur hið hefðbundna bananabrauð upp á næsta stig. Svo mjög reyndar að þið verðið aldrei söm. 

Það er meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari uppskrift en hún kann betur en flestir að baka.

Bananabrauð með haframjöli og súkkulaðibitum

  • 120 g smjör við stofuhita
  • 150 g púðursykur
  • 3 egg
  • 3 vel þroskaðir stappaðir bananar
  • 80 g AB mjólk (hreint jógúrt)
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 250 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • ½ tsk. salt
  • 1 tsk. kanill
  • 70 g haframjöl, til dæmis Til hamingju haframjöl
  • 50 g gróft saxað suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C
  2. Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
  3. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og skafið niður á milli.
  4. Þá fara stappaðir bananar, AB mjólk og vanilludropar út í blönduna.
  5. Hrærið saman þurrefnum (fyrir utan haframjöl og súkkulaði) og hellið í nokkrum skömmtum út í blönduna og hrærið létt.
  6. Vefjið að lokum haframjöli og súkkulaðibitum saman við deigið og hellið í vel smurt formkökuform.
  7. Bakið í 45-50 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út. Gott er að hafa álpappír lauslega yfir forminu fyrstu 25 mínúturnar því annars gæti brauðið orðið heldur dökkt.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert