Kjúklingaréttur með krömdum ólífum, steinselju og hvítlauk

Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Þessi réttur er alveg hreint fullkominn helgarréttur. Hér erum við með fremur einfaldan kjúklingarétt með afar spennandi hráefnum eins og ólífum og hvítlauk. Það er engin önnur en Berglind Guðmundsdóttir hjá GRGS.is sem á heiðurinn að þessari snilld.

Kjúklingaréttur með krömdum ólífum, steinselju og hvítlauk

Fyrir 3

  • 700 g kjúklingalæri, frá Rose Poultry
  • 1-2 tsk. turmeric
  • 5 msk. ólífuolía, t.d. extra virgin ólífuolía frá Philippo Berio
  • salt og pipar
  • 60 ml hvítvínsedik
  • 1 krukka grænar ólífur, steinlausar
  • 1/2 búnt fersk steinselja
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk. hvítvín (eða sítrónusafi)

Leiðbeiningar

1. Setjið lærin í ofnfast mót og kryddið með turmeric, salti og pipar og dreypið olíu yfir.

2. Hellið síðan ediki yfir kjúklingalærin og látið inn í 200°C heitan ofn í um 30 mínútur eða þar til þau eru gyllt á lit og elduð í gegn.

3. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum kremjið ólífurnar lítillega, pressið hvítlaukinn og saxið steinseljuna. Blandið öllu saman í skál ásamt hvítvíni (eða sítrónusafa) og kryddið með salti og pipar.

4. Takið kjúklinginn úr ofninum og setjið á disk. Látið ólífublönduna í ofnfasta mótið sem kjúklingurinn var á og blandið vökvanum sem kom af kjúklingnum saman við ólífumaukið. Hellið yfir kjúklinginn og berið strax fram.

Uppskriftina að þessum kjúklingarétti rakst ég á á vef NYT og hann kallaði á mig enda með eindæmum fallegur og auðveldur í gerð. Þarna hefur enn einn stórgóði kjuklingarétturinn bæst í safnið okkar góða. Njótið vel!

Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert