Sjúkleg súkkulaðikaka með englakremi

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Konan sem er flinkari en flestir að baka á heiðurinn að þessari uppskrift en það er auðvitað engin önnur en Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is sem jafnframt er höfundur hinnar óviðjafnanlegu Veislubókar sem er bókin sem bjargar lífi þínu ef þú hyggur á veisluhöld í framtíðinni. En nóg um þá snilldarbók og aftur að þessari keppnis súkkulaðikökuuppskrift sem á eftir að gera allt vitlaust. 

Berglind segir að uppskriftin sé komin frá móður hennar og boðið hafi verið upp á þessa köku í öllum afmælum. Reyndar hafi hún alltaf verið bökuð í fiðrildaformi og við skorum hér með á Berglindi að baka fleiri dýrakökur :)

Súkkulaðikaka með englakremi

Súkkulaðikaka

  • 350 g hveiti
  • 350 g sykur
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 3 msk. bökunarkakó
  • 150 g smjörlíki við stofuhita
  • 2 egg
  • 260 ml mjólk
  • 2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 170°C.
  2. Setjið hveiti, lyftiduft, salt og bökunarkakó í skál og hrærið saman, leggið til hliðar.
  3. Þeytið saman sykur og smjörlíki þar til það er létt og ljóst.
  4. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og skafið niður á milli.
  5. Því næst fara þurrefnin út í á víxl við mjólkina og að lokum vanilludroparnir.
  6. Hrærið deigið þar til það er slétt og fallegt og hellið í vel smurt kökuform sem er um 25-27 cm í þvermál.
  7. Bakið í um 40 mínútur eða þar til prjónn kemur út aðeins með smá kökumylsnu á, ekki blautu deigi, og kælið botninn áður en kremið er sett á.

Englakrem

  • 250 g sykur
  • 3 msk. síróp
  • 4 msk. vatn
  • ½ tsk. vanilludropar
  • 3 eggjahvítur

Aðferð:

  1. Setjið allt nema eggjahvítur í pott og hitið að suðu, lækkið þá hitann og hrærið vel í þar til sykurinn leysist upp (5-7 mínútur) og takið þá af hellunni.
  2. Stífþeytið eggjahvíturnar og hellið heitri sykurblöndunni saman við í mjórri bunu.
  3. Þegar öll sykurblandan er komin saman við má þeyta blönduna aftur þar til stífir toppar myndast.
  4. Smyrjið yfir súkkulaðibotninn kremi og á hliðarnar. Þetta er þykkt lag en kremið er svo létt í sér að því meira, því betra segi ég.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert