Það var í september síðastliðnum sem Sushi Anaba opnaði dyrnar í Danmörku en staðurinn er talinn verða sá vinsælasti í allri Evrópu áður en langt um líður.
Eigandi staðarins er Mads Battefeld sem segist sjálfur vera Japani í dönskum kokkslíkama. Mads var áður yfirkokkur á tveggja stjörnu Michelin-staðnum Henne Kirkeby Kro og hefur einnig starfað á sushi-veitingastaðnum Hakkoku. En það er á Hakkoku í Tokyo sem hann starfaði í eitt ár til að læra af þeim bestu í bransanum.
Í gegnum starf sitt í Tokyo sótti hann öll þau verkfæri sem þarf til að gera heimsins besta sushi. Allt frá því að standa úti á hrísgrjónaakri yfir í að velja ferskasta fiskinn á stórum fiskmarkaði. En metnaður hans og væntingar með Sushi Anaba eru háar. Hann horfir ekki mikið í Michelin-stjörnurnar, heldur vill hann fylgja eftir þeim gæðum og nákvæmni sem til þarf í að útbúa fullkomið sushi.
Innréttingarnar eru heldur ekki af verri endanum. Hér sjáum við handgerð loftljós úr glæsilegum sedrusviði, bambus og einnig hefðbundnar rennihurðir úr pappír sem ná upp í loft. Meira að segja prjónarnir sjálfir eru búnir til úr svörtum ebony-viði frá Kamerún.
Matseðillinn samanstendur af 22 skömmtum sem kosta 1.400 danskar krónur eða um 26 þúsund íslenskar krónur. Ef þú pantar sake með kostar það aukalega.