Sjúklega spennandi kebab-kjúklingur

Ljósmynd/samsett

Þetta er sjúklega spennandi uppskrift svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hér er það veisludrottningin Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem gerir heiðarlega (og afar vel heppnaða) tilraun við kebab.

„Svo virðist sem kebab, gyros, shawarma og fleira séu heiti á svipuðum mat frá mismunandi löndum. Mér leist svo vel á tzatziki-sósurnar sem ég rakst á og fylgja þær þessari útfærslu Grikkjanna. Ég ákvað því að grískt gyros yrði fyrir valinu í þessari tilraunastarfsemi minni.

Útfærsluna af kjúklingnum sá ég í Tasty-myndbandi og langaði mig svo að prófa að skera niður svona „fjall“ af kjúklingi að ég mátti til með að prófa þá aðferð. Hins vegar er í góðu lagi að elda kjúklingalærakjötið á „hefðbundinn“ hátt í eldföstu móti og skera það síðan í ræmur en þá þarf að stytta eldunartímann um helming í það minnsta.

Ég er venjulega sú sem hætti að skoða uppskriftir sem hafa of mörg hráefni á listanum en stundum þarf einfaldlega að gera undantekningu. Þessi uppskrift er alls ekki flókin og fjöldi hráefna felst aðallega í mismunandi tegundum af kryddum sem eflaust leynast hvort eð er ofan í skúffu hjá mörgum.“

Grískt gyros

Fyrir um 6-8 manns

  • 8-12 stk. Hatting mini pizzabrauð (þídd)
  • Smjör til steikingar
  • 2 pk. kjúklingalærakjöt (um 800-1.000 g) í maríneringu (sjá uppskrift að neðan)
  • 1 stór laukur (10 cm + í þvermál)
  • Grillpinni (um 25 cm langur)
  • Tzatziki-sósa (sjá uppskrift að neðan)
  • Kirsuberjatómatar (niðurskornir)
  • Rauðlaukssneiðar
  • Romaine-salat (niðurskorið)
  • Ferskur kóríander

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa maríneringuna fyrir kjúklinginn með því að hræra öllum hráefnunum saman í skál.
  2. Takið kjúklinginn og fletjið hann aðeins út með buffhamri.
  3. Blandið kjúklingakjötinu því næst út í maríneringuna og leyfið að standa í að minnsta kosti klukkustund, allt í lagi að láta standa yfir nótt í vel plöstuðu/lokuðu íláti.
  4. Gott er að útbúa tzatziki-sósuna næst (sjá uppskrift að neðan) og leyfa henni að standa í ísskáp þar til allt annað er tilbúið.
  5. Til þess að elda kjúklinginn eftir maríneringu þarf að skera stóra laukinn til hálfs, stinga grillpinna í hann miðjan og koma lauknum fyrir á ofnskúffu/í eldföstu móti.
  6. Raðið því næst kjúklingakjötinu upp á grillpinnann á víxl og búið til nokkurs konar fjall af kjúklingi.
  7. Eldið við 150°C í 2 klukkustundir og leyfið síðan að standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið skerið niður.
  8. Á meðan kjúklingurinn stendur er gott að steikja pizzabrauðin á pönnu við meðalhita upp úr smjöri.
  9. Síðan að lokum er að raða hráefnunum saman á mitt pizzabrauðið, tzatziki-sósu (nóg af henni), kjúklingi og grænmeti, klemma saman og njóta.

Marínering fyrir kjúkling

  • 530 g grísk jógúrt
  • 1 sítróna (börkur og safi)
  • 150 ml ólífuolía
  • 1 msk. salt
  • 3 pressuð hvítlauksrif
  • 1 msk. paprikuduft
  • 1 msk. saxaður ferskur kóríander
  • 1 tsk. oregano
  • ¼ tsk. svartur pipar

Tzatziki-sósa

  • 500 g grísk jógúrt
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • ½ sítróna (safinn)
  • 1 msk. ólífuolía
  • ½ tsk. salt
  • ¼ tsk. pipar
  • 1 msk. saxað kóríander
  • 1 heil agúrka

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál nema agúrkuna og blandið vel saman.
  2. Rífið agúrkuna með grófu rifjárni, setjið rifnu gúrkuna í hreint viskastykki/tusku og kreistið safann úr eins og unnt er. Þið endið með lófafylli af rifinni gúrku og henni má þá blanda saman við jógúrtblönduna og kæla fram að notkun.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Svona leit þetta út eftir tveggja klukkustunda eldun. Neðst er …
Svona leit þetta út eftir tveggja klukkustunda eldun. Neðst er 1/2 laukur sem pinnanum er stungið í og kjúklingnum síðan raðað á víxl ofan á hann. Ég fann ekki alveg nógu stóran lauk í búðinni til þess að fjallið héldi jafnvægi svo ég setti þetta einnig ofan í lítið hringlaga eldfast mót og þá var þetta flott. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert