Atriðin sem við klikkum á er við blöndum smoothie

Það jafnast fátt við ískaldan smoothie á morgnana.
Það jafnast fátt við ískaldan smoothie á morgnana. mbl.is/Colourbox

Hefurðu undrað þig á að ná ekki þessu fullkomna bragði sem þú sækist eftir er þú blandar þér smoothie? Það eru þrjú atriði sem vert er að hafa í huga, en flestir klikka á.

Númer 1
Flest okkar setja ísmola út í blönduna því við viljum hafa smoothie-inn alveg ískaldan. Ísmolarnir hafa þvi miður þau áhrif að drykkurinn verður of vatnskenndur og þar að leiðandi minnkar bragðið mikið. Með því að nota frekar frosin ber eða grænmeti þynnir þú ekki út bragðið og smoothie-inn verður þykkur og með mjúka áferð. Það er líka auðveldara að blanda frosna heldur en ferska ávexti, því þessir fersku eiga það til að tætast meira og þú ert líklegri til að fá stærri ávaxtabita í einu sem þú kærir þig ekkert um.

Númer 2
Þegar við stöndum hálfsofandi á morgnana fyrir framan blandarann er engin furða að við séum ekki alveg með athyglina á hreinu í hvaða röð við setjum hráefnin í blandarann. Það skiptir í raun ekki máli í hvaða röð hráefnin fara í blandarann en það er mikilvægt að setja fyrst allan vökva og síðan ber, ávexti og annað sem á að fara saman við. Ástæðan er sú að það er léttara fyrir blandarann sjálfan ef vökvinn fer fyrst í. Svo ef þér finnst eins og blandarinn sé alltaf að fara að brenna yfir um þegar þú setur hann í gang – prófaðu þá að setja vökvann fyrst í og sjáðu hvort hljóðið lagist ekki.

Númer 3
Þegar við erum að drífa okkur út á morgnana þarf allt að gerast nokkuð hratt fyrir sig. Og því ekki ólíklegt að við setjum allt í botn til að flýta fyrir. Það er samt ekki alltaf það besta. Því ef þú setur blandarann á hæstu stillingu sýgur hann loft inn og loftbóla myndast í kringum hnífsblaðið sem verður til þess að hann vinnur ekki sem skyldi. Best er að byrja rólega og vinna sig upp í hraðanum og þá þar til öll hráefnin hafa blandast vel saman. Þá setur þú á hæstu stillingu í 30 sekúndur þar til myndast lítill hvirfilbylur á toppnum – það gefur drykknum áferðina sem drykkurinn er nefndur eftir, „smoothie“.

mbl.is/Colourbox
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert