Öll sofum við með sængur enda fátt betra en að kúra uppi í rúmi á köldum vetrardegi með hlýja sæng. Flest skiptum við reglulega um sængurver og þvoum þau eftir kúnstarinnar reglum en ansi margir gleyma að þvo sængurnar sínar og sumir hafa aldrei þvegið sængina sína.
Ef þið veltið þessu fyrir ykkur þá er það dálítið galið að þvo sængina aldrei. Sængin getur fyrir vikið orðið gróðrastía fyrir bakteríur en það veltur auðvitað á því hvernig þið hugsið um hana. Gott er að viðra hana reglulega úti en bæði sólarljós og ferskt loftið gerir kraftaverk.
Sviti, húðflygsur, matarleifar, munnvatn og annað sem endar í rúminu fer í sængina í gegnum rúmfötin og slíkt getur valdið vondri lykt og hreinlega verið heilsuspillandi.
Flestar sængur má þvo og það ber að gera á nokkkurra mánaða fresti. Sumar sængur eru of stórar til að komast í þvottavélina og þá borgar sig að fara með hana í hreinsun.
Mikilvægt er einnig að viðra sængina vel og/eða þvo eftir veikindi og mikla rúmlegu.
Sængur eru eitthvað sem gleymist almennt í heimilisþrifum en það ber að hugsa vel um þær og fjárfesta í góðri sæng — og hirða hana vel.
Ekki gleyma sænginni gott fólk því hún getur breyst í gróðrastíu fyrir bakteríur og það viljum við alls ekki.