Flestir myndu segja að það væri nóg að skipta um handklæði einu sinni í viku, svo lengi sem maður hengi handklæðið upp eftir notkun, og að það liggi ekki á gólfinu. En því eru helstu þrifspekúlantar ekki sammála.
Hreingerningarsérfræðingurinn Kelly A. Reynolds talar um hjá Buzzfeed Life að þau handklæði sem blotna megi hengja upp til þerris og nota í þrjú skipti áður en þau eru sett í þvott. Bakteríur og sveppir byrja að vaxa á handklæðum í raka, en stoppa um leið og þau þorna.
Eftir hvert skipti sem við notum handklæði sitja milljónir af dauðum húðfrumum eftir á handklæðinu. Og það er ástæðan fyrir því að handklæði, sem við notum oft án þess að þvo á milli, byrja að lykta illa.
Þar fyrir utan ber að þvo þvottapoka og klúta eftir hverja notkun sem iðulega eru gegnumblautir og skítugir eftir eitt skipti og því upplagður felustaður fyrir bakteríur að vaxa og dafna. Við notum oftast þvottapoka til að þrífa dauðar húðfrumur og farða, og ber ekki að nota slíka klúta oftar en einu sinni.