Sérfræðingar segja: skildu skóna eftir í anddyrinu ef þú vilt forðast bakteríur og smit á heimilinu.
Skórnir þínir eru skítugri en þig grunar, en flest erum við með óskrifaða reglu um að fara úr skónum er við komum heim til að þurfa ekki að draga fram ryksuguna eins oft og ella. En flest brjótum við líka þessa reglu þegar við komum heim úr búðinni með fullt fangið af innkaupapokum sem við þurfum að koma inn í eldhús. Eða þegar við erum á leið út úr dyrunum og munum eftir að hafa gleymt einhverju inni og ætlum bara rétt að skjótast eftir því. Þetta hlýtur að vera alveg skaðlaust, eða hvað? Vísindin segja „nei“!
Þetta segja vísindamennirnir okkur
Þó að skórnir séu hreinir á að líta er það langt í frá að vera raunin. Rannsókn sem gerð var í Háskólanum í Arizona sýnir fram á að útiskórnir okkar eru bakteríubomba. Það finnast að meðaltali 421.000 bakteríur á skónum og allt að níu mismunandi bakteríur sem geta gefið okkur sýkingu í maga, augu og lungu. Þar fyrir utan sýndi rannsóknin fram á að bakteríurnar lifa lengur á skónum okkar en á öðrum stöðum, þær nærast á ruslinu og skítnum sem við tröðkum á daglega.
Rannsóknirnar sýndu einnig fram á að bakteríurnar festust við gólfið heima hjá þér í 90% tilfella og enn meira ef um teppi var að ræða. E. Coli-bakteríur var að finna á 27% af skónum, en slíkar bakteríur koma m.a. ef við stígum í fugla- eða hundaskít eða göngum um á almenningssalerni.
Því segjum við – tökum skóna af okkur í anddyrinu og höldum heimilinu hreinu.