Fyrir nokkru birti skyndibitakeðjan KFC nýja auglýsingu á skjánum í Bretlandi sem almenningur kvartaði harðlega yfir – í ljósi ástandsins í heiminum í dag.
Auglýsingin kallast „The Piano“ og sýnir leikræna tilburði undir merkislínu fyrirtækisins „Finger-licking good“. Í auglýsingunni má sjá tugi fólks á opinberum stöðum borða KFC kjúkling og sleikja á sér fingurna þess á milli.
Á annnað hundrað manns kvörtuðu undan auglýsingunni þar sem á sama tíma var verið að biðja almenning að þvo á sér hendurnar og spritta sökum útbreiðslu kórónaveirunnar í heiminum. Fólk sagði auglýsinguna óábyrga og hvetja til hegðunar sem gæti dreift vírusnum enn frekar.
Forsvarsmenn KFC sögðust taka auglýsinguna úr birtingu að þessu sinni í ljósi aðstæðna, en jafnframt hlakka til þegar þeir gætu kastað henni aftur á skjáinn þar sem þeir væru stoltir af auglýsingunni sem slíkri. Hér fyrir neðan má sjá auglýsinguna í heild.