Besta nachos-ídýfa sem sést hefur lengi

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hver elskar ekki dásamlega heita ostaídýfu — sem er löðrandi í gúmmelaði og glæsilegheitum? Í þokkabót borin fram í steypujárnspönnu sem gerir hana enn þá svalari.

Berglind Hreiðars á Gotteri.is á heiðurinn að þessari snilld en hún eignaðist þessa forláta pönnu á dögunum og segist hafa orðið að finna upp á einhverju sniðugu til að laga í pönnunni og úr hafi orðið ein besta nachos-ídýfa sem hún hafi prófað.

„Lodge-pönnurnar eru þannig úr garði gerðar að með réttri meðhöndlun geta þær gengið í ættir. Gott er að þvo þær og þerra eftir hverja notkun og bera reglulega á þær matarolíu með eldhúspappír til að halda þeim glansandi og viðloðunarfríum. Það var svoooo margt sem mig langaði að prófa að elda og baka á þessari dásemdarpönnu en ákvað að byrja á þessari súpergóðu nacos-dýfu sem mun engan svíkja. Fullkomin fyrir kósýkvöldið, saumaklúbbinn eða hvað sem er! Hugmyndina sá ég á vefsíðu sem heitir Best Recipe Box og útfærði ég hana örlítið eftir mínu höfði,“ segir Berglind.

Nachos-dýfa með osti og hakki

  • 200 g nautahakk
  • 4 x vorlaukur eða ½ púrrulaukur
  • 2 x ferskt chili
  • 2 x ferskt jalapeño
  • 230 g rjómaostur
  • 180 g majónes
  • 200 g rifinn cheddar ostur (+ meira ofan á í lokin)
  • 2 msk. taco-krydd
  • Salt, paprika, chili-krydd eftir smekk
  • Ólífuolía til steikingar
  • Tómatar, ólífur, vorlaukur og kóríander sett ofan á þegar ídýfan kemur úr ofninum.

Aðferð:

  1. Steikið nautahakkið upp úr olíu, kryddið með taco-kryddi, papriku, chili og salti.
  2. Saxið vorlauk, chili og jalapeño smátt niður og steikið í lokin með hakkinu.
  3. Blandið þá rjómaosti, majónesi og rifnum osti út á pönnuna og hrærið þar til allur ostur er bráðinn, kryddið til eftir smekk.
  4. Stráið rifnum cheddar-osti yfir í lokin og bakið í 190° heitum ofni í um 15 mínútur.
  5. Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr og skerið niður vorlauk og tómata og setjið yfir ásamt ólífum og ferskum kóríander. Njótið með stökkum nachos-flögum.
  6. Það er ýmislegt fleira sem er á uppskriftarlistanum mínum fyrir þessa pönnu og svo megið þið endilega senda mér hugmyndir um hvað þið viljið fá að sjá galdrast fram með henni!
  7. Pannan hitnar jafnt og því er algjör snilld að fjárfesta í hlíf á skaftið til að geta tekið hana út á auðveldari hátt.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert