Það er engin önnur en Halla Bára sem heldur úti Home & delicious sem á heiðurinn af þessari uppskrift en sjálf segir hún að uppskriftir að svona klassískri köku séu óteljandi — og misgóðar.
„Uppskriftin er ekkert leyndarmál, því hana á ein af skemmtilegri sjónvarpskokkum sem sjást á skjánum, Ina Garten, sem kemur fram undir nafninu Barefoot Contessa. Kakan er draumi líkust og við erum á því að hlutföllin í henni séu fullkomin.“
Uppáhaldsdjöflatertan
12 skammtar
- 1 3⁄4 bollar hveiti
- 2 bollar sykur
- 3⁄4 bolli kakó
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. natron
- 1 tsk. salt
- 1 bolli mjólk eða rjómi
- 1⁄2 bolli olía, t.d. repju-, hnetu- eða isio-olía
- 2 stk. egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 1 bolli heitt kaffi
Kreminnihald
- 160 g suðusúkkulaði
- 225 g mjúkt smjör
- 1 stk. eggjarauða
- 1 tsk. vanilludropar
- 1 1⁄4 bolli flórsykur
- 1 tsk. kaffiduft
- 2 tsk. heitt vatn
Botn
- Hitið ofn í 180 gráður.
- Setjið öll þurrefnin í hrærivélarskál, hrærið saman á lægstu stillingu og látið þau blandast vel.
- Bætið þá mjólk eða rjóma, olíu, eggjum, vanilludropum og kaffi saman við og hrærið vel en varlega því blandan er frekar þunn.
- Hellið í tvö smurð bökunarform, kakan fer best í 23 cm formi því þá ná botnarnir meiri þykkt og kakan er veglegri og reisulegri að bera fram.
- Setjið í ofn og bakið í 25-35 mínútur.
- Stingið í botnana með kökuprjóni eftir 25 mínútur og athugið hvort þeir koma hreinir út. Ef svo er þá eru botnarnir bakaðir.
- Gætið að því að baka þá ekki of mikið, þá verða þeir þurrari en þeir eiga að vera.
- Kælið áður en kremið fer á þá.
Krem
- Bræðið súkkulaðið og kælið án þess að það taki að harðna.
- Hrærið það þá saman við mjúkt smjörið, í um 3 mínútur.
- Setjið eggjarauðuna saman við og hrærið áfram þar til súkkulaðiblandan er glansandi og kekkjalaus.
- Bætið vanilludropum og flórsykri út í og hrærið rólega.
- Látið kaffiduftið leysast upp í heitu vatninu og hellið varlega saman við kremið.
- Hrærið áfram þar til kremið er mjúkt og létt.
Samsetning
- Smyrjið kremi ofan á annan botninn, leggið þá hinn þar ofan á.
- Smyrjið kökuna vandlega með kreminu, topp og hliðar.
- Mörgum þykir betra að kæla súkkulaðiköku eins og þessa áður en hún er borin fram. Það er alfarið ykkar ákvörðun því hún er alltaf jafn góð.
- Berið fram með þeyttum rjóma, ís, mascarpone-kremi, grískri jógúrt, ávöxtum, berjum … eða bara eina og sér. Hún stendur fyllilega undir því.
Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir
- - -
Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...
Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl