Páskasósan er ekkert grín og því mikilvægt að vera með hárrétta steik með henni. Hér gefur að líta uppskrift að syndsamlega góðri svínasteik úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is sem henni fannst smellapassa með sósunni góðu.
„Hér er svínalundin búin að liggja í marineringu og er síðan elduð í ofni. Hana væri einnig gott að grilla en þennan daginn var snjóstormur úti svo við lögðum ekki í að taka grillið út, hahaha. Með lundinni er ofurgóð sveppasósa með skalottlauk, kartöflumús með hvítlauk og gott salat,“ segir Berglind um uppskriftina.
Svínalund og meðlæti
Fyrir um 5-6 manns
Svínalund
- Um 900 g svínalund (keypti 2x grísalundir um 450 g hvor)
- Bezt á svínið-krydd
- 8 msk. ólífuolía
- 5 msk. sojasósa
- 2 msk. gult sinnep
- 4 msk. púðursykur
Aðferð:
- Snyrtið svínalundina, þerrið og kryddið með Bezt á svínið-kryddi allan hringinn.
- Blandið öllum öðrum hráefnum saman í skál og pískið saman.
- Hellið um 1/3 af marineringunni í aðra skál og geymið þar til síðar fyrir penslun og veltið svínalundinni vel upp úr restinni og leyfið henni að marinerast í að minnsta kosti klukkustund (yfir nótt er líka í lagi). Gott að gera þetta í stórum ziplockpoka.
- Hitið ofninn í 200°C og byrjið að elda lundina með álpappír yfir, hækkið síðan upp í 220°C síðustu 10 mínúturnar, takið álpappírinn af og setjið grillstillinguna á, penslið um leið restinni af marineringunni á lundina. Það tekur ekki nema um 30 mínútur að elda litlar lundir eins og þessa, séu þær sverari tekur það lengri tíma og því er alltaf best að notast við kjöthitamæli.
- Eldið í ofni þar til kjarnhiti sýnir um 70°C og leyfið steikinni síðan að standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en hún er skorin.
Sveppasósa
- 250 g kastaníusveppir
- 1 skalottlaukur
- Um 3-4 msk. smjör
- 500 ml rjómi
- 200 ml vatn
- 1 pk TORO „Kantarell & Sjampinjongsaus“
- 1 pk TORO „Kremet Kyllingsaus med basilikum & sjalottlok“
- 1 tsk. púðursykur
- 2 tsk. ferskt timían (smátt saxað)
- salt, pipar og cayennepipar
Aðferð:
- Skerið sveppi í sneiðar og saxið laukinn, steikið upp úr smjöri og saltið.
- Hellið rjóma og vatni í pottinn og pískið báðar tegundir af sósudufti saman við.
- Bragðbætið með púðursykri, fersku timíani og salti, pipar og cayennepipar eftir smekk.
Hvítlaukskartöflumús
- 4-5 bökunarkartöflur
- 2 hvítlauksrif (rifin)
- 3 msk. smjör við stofuhita
- 2 msk. rjómi
- 2 tsk. ferskt timían (smátt saxað)
- salt, pipar og hvítlauksduft eftir smekk
Aðferð:
- Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn.
- Afhýðið kartöflur, setjið í hrærivélarskál með K-inu, hrærið á lægsta hraða og bætið öllum öðrum hráefnum saman við.
- Smakkið til og berið fram með steikinni og sósunni.
Salat
- Blandað salat úr poka
- Vínber skorin í tvennt
- Brómber
- Fetaostur
- Furuhnetur
- - -
Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...
Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir