Besta brauðterta sem sést hefur lengi

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Ef það er eitthvað sem við þurfum þessi dægrin þá er það góð brauðterta og þessi er svo sannarlega í þeim flokki enda ef það er eitthvað sem konan á bak við hana kann þá er það að halda veislur og búa til bestu veitingar í heimi. Hér erum við að sjálfsögðu að tala um Berglindi Hreiðars á Gotteri.is

Skinkubrauðterta með suðrænu ívafi

Brauðterta

  • 450 g Hellmann's-majónes
  • 100 g sýrður rjómi (18%)
  • 1-2 tsk. sriracha-chilisósa
  • salt, pipar, cheyennepipar eftir smekk
  • 10 harðsoðin egg
  • 2 ananashringir úr dós (eða ferskir)
  • 400 g skinka
  • 1 ½ fransbrauð (um 34 sneiðar)

Aðferð:

  1. Pískið saman majónes, sýrðan rjóma og srirachasósu, kryddið til með salti, pipar og cheyennepipar.
  2. Skerið eggin á tvo vegu í eggjaskera og setjið út í majónesblönduna.
  3. Saxið ananassneiðarnar alveg niður í mauk og hellið saman við ásamt smátt skorinni skinkunni.
  4. Vefjið öllu vel saman og skerið þá næst skorpuna af öllum brauðsneiðunum, geymið skorpuna því hún er notuð í skreytingunni.
  5. Gott er að nota um 22 cm hring af smelluformi og setja ofan á kökudisk. Fyrsta lagi af brauði er raðað í botninn, 4 sneiðar ættu að komast í miðjuna og svo rífið/skerið þið brauðið bara til svo það fylli upp í hringinn (þetta þarf ekkert að vera fullkomið, salatið og majónesið í lokin mun fylla upp í götin).
  6. Skiptið salatinu í 4 hluta og setjið ¼ ofan á fyrsta brauðlag og smyrjið alveg út í kantana á smelluforminu og svo koll af kolli þar til þið eruð komin með 5 lög af brauði og 4 lög af salati.
  7. Kælið á meðan þið gangið frá og gerið skrautið tilbúið. Skerið svo með hníf meðfram smelluhringnum áður en þið losið hann og togið varlega upp.

Skreyting

  • Um 400 g Hellmann's-majónes
  • skorpa af fransbrauðinu
  • 2 harðsoðin egg
  • ferskur ananas
  • agúrka í sneiðum
  • sítróna í sneiðum
  • kíví í sneiðum
  • græn vínber
  • steinselja
  • blæjuber

Aðferð:

Smyrjið brauðtertuna að utan með þunnu lagi af majónesi með kökuspaða.

Raðið brauðskorpu allan hringinn og skreytið síðan að vild ofan á.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert