Á Flateyri við Önundarfjörð er að finna ansi merkilegan skóla. Þar eru engin próf, engar einkunnir og lagt er upp með að skapa nemandanum aðstæður til að uppgötva eigin styrkleika og áhugasvið. Í skólanum eru tvær námsbrautir, sem oftast eru kallaðar inni- og útibrautin. Námsvetrinum er skipt upp í tveggja viknar lotur þar sem hvert námskeið er kennt í tvær vikur. Þetta fyrirkomulag, skapar tækifæri til að fá reynt fólk og fagaðila víðsvegar að úr heiminum til að halda námskeiðin.
Áhrifa kórónuveirunnar gætir á Vestfjörðum eins og víðar og því varð úr að hlé verður tekið á kennslu eftir páska en námskeiðin þar á undan voru kennd með fjarkennslu. Á innibrautinni var ljósmyndarinn Saga Sigurðardóttir með námskeið sem bar yfirskriftina Skapandi ljósmyndun og á útibrautinni var matreiðslumaðurinn Völundur Snær Völundarson með námskeið sem kallast Matarkistan Önundarfjörður, þar sem markmiðið var að afla fæðu úr firðinum og matbúa hana.
Að sögn Völundar var töluverð áskorun að halda námskeið í gegnum tölvu. „Námskeiðslýsingin hljóðaði upp á vettvangsferðir, vinnslu á hráefninu og síðan hvernig á að elda það, þannig að það var hreint ekki sjálfgefið að þetta myndi ganga upp. Þetta gekk samt miklu betur en ég hafði þorað að vona og það er ekki síst þessum frábæra hópi nemenda að þakka,“ segir Völundur. „Við vorum mikið að vinna með sjávarnytjar eins og fisk, hörpuskel, ígulker og þara. Ég byrjaði á því að senda þau niður í fjöru þar sem þau tíndu nokkrar mismunandi tegundir af þara sem var svo þurrkaður. Við nýttum hann meðal annars í soð fyrir súpu, bjuggum til meðlæti úr honum, þurrkuðum hann og steiktum í snakk. Í súpugerðinni var horft til asískrar matargerðar en þari er þar undirstöðuhráefni enda státar hann af umami-bragði sem er alla jafna kallað fimmta bragðið. Við unnum mikið með fisk og þá hvernig við gátum nýtt allan fiskinn. Beinagarðurinn var nýttur í soð, við þurrkuðum og krydduðum roðið og djúpsteiktum í snakk. Krakkarnir lærðu að búa til sitt eigið salt sem þau gerðu tilraunir með að þróa nánar og bragðbæta. Saltvinnslan felst í því að sjóða niður sjó, sem er nokkuð sem allir geta gert heima hjá sér og prufað sig áfram með.
Svo fengum við kafara til að sækja fyrir okkur hörpuskel og ígulker af sjávarbotni sem krakkarnir borðuðu af bestu lyst. Við færðum okkur upp á land og gerðum osta en hætt var við heimsókn á bóndabæi þar sem búið er að loka þeim öllum fyrir gestum og gangandi,“ segir Völundur um hvað hópurinn fékkst við á námskeiðinu.
„Okkur langaði að gera góðan mjúkost og því höfðum við samband við Mólkurvinnsluna Örnu sem er vestfirsk í húð og hár. Þar var heldur betur vel tekið í erindið og við fengum alla þá aðstoð sem við þurftum. Þar var fremstur í flokki Sigurður Mikaelsson sem er gríðarlega fróður um ostagerð og sjálfur lærði ég mikið af honum,“ segir Völundur en hópurinn lærði meðal annars að gera mozzarellaost og kotasælu.
„Markmiðið var jafnframt að draga athyglina að hráefnunum sem við fáum úr sjónum. Fiskurinn er þekkt stærð en þarinn er minna í umræðunni. Samt er hann eitt það magnaðasta sem fyrirfinnst í náttúrunni. Hann er náttúruleg uppspretta joðs en joðskortur er að verða verulegt vandamál í heiminum í dag. Simbi kafari, sem reyndist náskyldur mér, kafaði fyrir okkur eftir hörpuskel og ígulkerum. Ég hafði sent vestur lífræna sojasósu sem er mun bragðmildari en við eigum að venjast og síðan hafði ég samband við Nordic Wasabi sem ræktar alvöru wasabirót hér á landi. Frábært frumkvöðlafyrirtæki sem hikaði ekki við að senda rót og rifjárn vestur svo krakkarnir gætu smakkað alvöruwasabi,“ segir Völundur en það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir að hefðbundið wasabimauk er í reynd piparrótarmauk sem búið er að lita grænt.
„Mér fannst það líka svo magnað hvað það voru allir viljugir að leggja hönd á plóg þrátt fyrir hamlandi aðstæður.
Svona eftir á að hyggja lærðu þau kannski meira af því að hafa mig ekki á svæðinu,“ segir Völundur og hlær. „Tilhneigingin er að sýna alltaf hvernig á að gera hlutina en þegar maður er staddur í öðrum landshluta þarf maður að sleppa og treysta,“ segir hann og bætir við að krakkarnir hafi komið sér virkilega á óvart. „Maður veit auðvitað aldrei hvernig svona hópur er en þetta voru þvílíkir snillingar og það var frábært að kenna þeim. Það reyndi mikið á þau og þau stóðu undir hverri áskorun. Það sem kom mér ekki síst á óvart er hvað þau voru áhugasöm og úrræðagóð þegar á reyndi.“
Í Lýðskólanum á Flateyri er lögð höfuðáhersla á að gefa nemendum frelsi til menntunar út frá sínum forsendum. Því eru engin próf, einkunnir eða gráður, heldur er markmiðið að skapa nemendum aðstæður og umgjörð til náms og menntunar. Nemandinn ber sjálfur ábyrgð á náminu en markmiðið er að búa nemandanum vettvang til að uppgötva og styrkja þá einstöku hæfileika sem hann hefur í umhverfi sem er fullt af áskorunum en á sama tíma ríkt að stuðningi, endurgjöf og samvinnu. Séu námskeiðin sem kennd eru við námsbrautirnar tvær skoðaðar kennir þar ýmissa grasa. Námskeiðin eru afar fjölbreytt og kennaraflóran er það einnig. Óhætt er að segja að enginn skóli hérlendis státi af sambærilegri námskrá.
Ungt fólk sem hefur nýlokið framhaldsskólaprófi velur gjarnan að fara í lýðskóla og fá þannig næði og tíma til að átta sig á styrkleikum, veikleikum og vilja til frekara náms. Einnig er algengt að fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi sæki í lýðskóla og nýti þannig tækifæri sem þetta til að hefja nám á ný.
Algengur aldur nemenda við lýðskóla er 18-30 ára en gjarnan er tekið á móti nemendum sem eru eldri en 30 ára og ekki síður fjölskyldufólki.
Í lýðskóla búa nemendur iðulega saman á einhvers konar heimavist og deila herbergi með öðrum. Þeir læra mikið af því að búa og vinna með öðrum. Eitt er víst: með því að búa með fólki kynnast nemendur á hátt sem þeir gera ekki á venjulegum skólatíma. Það kennir nemendum líka mikið um sjálfa sig.
Að búa með skólasystkinum þýðir að skilin á milli náms og félagslífs verða óskýr. Nemendur hafa aðgang að skólaaðstöðu utan skólatíma og það gefur þeim frelsi til að vinna saman að sínum hugðarefnum. Nemendur skipuleggja nemendakvöld, ferðalög og aðra viðburði og félagslíf. Mikilvægur þáttur í lýðskóla er einnig samvinna og samvera með íbúum þess samfélags sem umkringir skólann.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.