„Þarf kraftaverk til að lifa þetta af"

Búast má við að fleiri fylgji í kjölfar Bryggjunnar á …
Búast má við að fleiri fylgji í kjölfar Bryggjunnar á næstu vikum og mánuðum. Ljósmynd/Bryggjan Brugghús

Eins og fram hefur komið var rekstrarfélag Bryggjunnar Brugghúss úrskurðað gjaldþrota þann 15. apríl síðastliðinn. Í samtali við mbl sagði Finnur Björn Harðarson, annar eiganda staðarins, að gjaldþrotið hefði verið óumflýjanlegt miðað við aðstæður í dag. „Bryggjan er stór staður sem sérhæfir sig í hópum þannig að þetta var gríðarmikið högg eins og gefur að skilja," segir Finnur.

Hagsmunaaðlilar í veitingageiranum hafa gert sitt ýtrasta til að varpa ljósi á þá grafalvarlegu stöðu sem komin er upp. Ekki sé einleikið fyrir starfsmannafrekan og dýran rekstur að skella í lás tímabundið. Aðrir sem mbl ræddi við bentu á að þrátt fyrir að veitingastaðir væru að bjóða heimsendingar þá væri það skammgóður vermir. „Maður reynir allt. Það er ekkert annað í boði en þetta er svakalegur skellur," sagði einn heimildarmaður sem vildi ekki láta nafn síns getið.

„Bryggjan var kannski fyrst en hún verður ekki síðust. Það þarf kraftaverk til að lifa þetta af," sagði annar veitingamaður sem jafnframt vildi ekki láta nafn síns getið en almennt er tónninn þungur í þeim veitingamönnum sem rætt var við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert