Mömmu-lasagne eins og það gerist best

Ljósmynd/Stella Rún

Það er hún Stella Rún sem er með matarbloggið Ilmurinn úr eldhúsinu sem á heiðurinn að þessari uppskrift sem hún kallar Mömmu-lasagne en eins og við vitum þá eru mömmu-uppskriftir oftast bestar.

Stella segist elska góðan heimilismat og hún sé sífellt að leita að góðum uppskriftum sem falli í kramið hjá fjölskyldunni. „Lasagne er einn af þessum réttum sem öllum finnst góður. Ekki skemmir heldur fyrir hversu þægilegt og einfalt það er að útbúa ljúffengt lasagne. Uppskriftin sem ég nota oftast er í grunninn sú sem mamma gerir. Ég elskaði lasagne-ið hennar sem barn. Þetta er minn “go to”-réttur þegar við höldum matarboð enda er auðvelt að útbúa mikið magn í einu og metta þannig marga með algjörri lágmarksfyrirhöfn,“ segir Stella Rún.

Mömmu-lasagne

  • 2 msk. olía
  • 400-500 g nautahakk
  • 1 laukur
  • 1 rauðlaukur
  • 350 g rifnar gulrætur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 70 g tómatpúrra, e.t.v. meira
  • 2 teningar nautakraftur
  • 1 dl vatn
  • 1 dós hakkaðir tómatar, ég nota með basil og oregano
  • Stór krukka eða dós pastasósa
  • 1 poki spínat - má sleppa
  • 3 msk. tómatsósa
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 1 stór og 1 lítil dós kotasæla
  • 2-3 dósir sýrður rjómi, 10%
  • Parmesan-ostur
  • Rifinn ostur

Aðferð:

  1. Byrjið á að rífa gulrætur og saxa laukana smátt. Steikið í olíunni þangað til að laukurinn er orðinn glær. Bætið þá hvítlauksgeirunum á pönnuna og blandið vel.
  2. Látið hakkið út á pönnuna og steikið í gegn. Blandið saman við tómatpúrrunni, nautakraftinum og vatninu og leyfið öllu að koma vel saman á pönnunni. Saltið og piprið.
  3. Bætið nú hökkuðu tómötunum og pastasósunni á pönnuna og setjið heilan poka af spínati saman við. Þegar hér er komið við sögu lítur út fyrir að allt muni sjóða upp úr en gefið þessu nokkrar mínútur. Spínatið mun hverfa í sósunni.
  4. Leyfið kjötsósunni að malla eins lengi og hægt er eða a.m.k. á meðan hvíta sósan er útbúin.
  5. Ég geri ekki hefðbundna hvíta sósu einfaldlega af því að mér finnst mín útgáfa betri. Svo nenni ég ekki að gera bechamel-sósu. Ég notast við blöndu af kotasælu, sýrðum rjóma og parmesan. Mér finnst lasagne-ið verða léttara með þessari sósu, einhvern veginn ekki eins þungt í maga.
  6. Hrærið saman kotasælu og sýrðum rjóma í stórri skál og rífið út í vænan bita af parmesan.
  7. Nú er komið að því að raða öllu góðgætinu í fatið! Byrjið á að setja smá kjötsósu í botninn og raðið lasagne-plötum ofan á. Smyrjið þá vel af hvítu sósunni yfir plöturnar og kjötsósu yfir þannig að hún þeki allt saman. Endurtakið þar til bæði hvíta sósan og kjötsósan eru uppurnar. Dreifið vel af rifnum osti yfir og til að fá extra gott bragð er gott að rífa smá parmesan ost yfir líka.
  8. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-35 mínútur eða þangað til að osturinn er orðinn gullinbrúnn.

Spínatinu má vel sleppa og breytir það engu varðandi bragðið. Mér finnst hins vegar gott að „lauma“ eins miklu grænmeti og hægt er í fatið. Það er eitt varðandi hvítu sósuna — stundum finnst mér fullmikið að kaupa allar þessar dósir af kotasælu og sýrðum rjóma. Þá læt ég oft duga að kaupa eina stóra dós af kotasælu og nota svo það sem til er heima saman við. Ég hef notað bæði AB-mjólk og gríska jógúrt og hefur bæði komið mjög vel út. Þetta sparar manni líka heilmikil innkaup án þess að koma niður á bragðinu!

Nú til dags eru margir að reyna að minnka kjötneyslu. Við fjölskyldan erum þar engin undantekning. Ég hef því minnkað magnið af hakki sem ég nota í þessa uppskrift um helming en það kemur ekkert niður á bragðinu. Auðvitað mætti sleppa kjötinu alveg og útbúa grænmetislasagne en mér finnst eitthvað notalegt við kjötsósuna sem fær að malla í rólegheitum og gefur svo gott bragð. Grænmetislasagne-ið fær bara sína eigin færslu síðar enda gómsætur réttur sem stendur alveg einn og sér.

Eitt smá tips að lokum. Ef þið hafið tök á að útbúa lasagne-ið kvöldinu áður eða í hádeginu þann daginn sem þið berið það fram fáið þið bæði bragðmeiri og safaríkari rétt. Þetta er að sjálfsögðu ekki nauðsynlegt skref en eitthvað sem er vert að prófa einn frostkaldan laugardaginn. Þessi réttur er uppáhald hér á heimilinu og víðar!

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl.

Ljósmynd/Stella Rún
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert