Það getur reynst erfitt að halda röð og reglu í eldhúsinu þegar það er stanslaust í notkun. Hér eru nokkur atriði sem þú getur farið eftir til að minnka óreiðuna.
Skipulag, skipulag, skipulag
Með því að skipuleggja eldhúsið vel verður mun auðveldara að nota það. Þú getur keypt ílát og krukkur sem passa í skúffurnar þínar og skápa, sem þú fyllir með sykri, hrísgrjónum eða öðrum þurrvörum. Þannig sleppur þú við opna poka með matvörum sem eiga það til að dreifa sér út um allt ef pokinn fellur á hliðina – og þú færð mun meiri yfirsýn yfir hvað sé til.
Forðastu einnig að kaupa nýjan poka af sykri eða öðru sem þú átt nóg af til að sitja ekki uppi með lager þegar plássið býður ekki upp á það.
Hugsaðu um geymslumöguleikana
Til að forðast óreiðu í eldhúsinu er mikilvægt að það sé ekki of mikið af græjum og áhöldum uppi við. Því er gott að finna stað fyrir allt sem tekur pláss og þá sérstaklega ef það er ekki mikið notað. Í sumum eldhúsum eru háir skápar sem ná frá gólfi og upp í loft. Það er einstaklega hagkvæmt að vera með einn mjóan en háan skáp í eldhúsinu – skáp sem lætur ekki mikið yfir sér en geymir alls kyns óþarfa. Því við viljum helst forðast það eins og heitan eldinn að byrja að henda lausu dóti upp á eldhússkápana, það getur orðið draslaralegt.
Finndu góðar lausnir
Það finnast margar góðar lausnir til að halda eldhúsinu í lagi. Til dæmis er statíf undir pottlok algjör snilld, nú eða hnífapararekki sem er nauðsynlegt fyrir hnífapör og önnur áhöld sem við annars rótum lengi í og finnum aldrei neitt. Eins eru til skipulagshólf fyrir beitta hnífa sem er stórsniðugt og þá er engin þörf á að hafa stórt hnífastatíf upp á borði.
Það eru svo sannarlega margar góðar lausnir fyrir skápa og skúffur sem flestöll eldhúsfyrirtæki bæjarins eiga til á lager. Svo það er ekki eftir neinu að bíða – bara að koma eldhúsinu í léttara og skipulagðara horf, og þú munt finna muninn.