Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir á Döðlum & smjöri á heiðurinn af þessari uppskrift sem er ótrúlega spennandi enda fátt betra en heimabakaðir snúðar. Hvað þá þegar búið er að baka þá úr brioche-deigi og bragðbæta með pekanhnetum og hvítu súkkulaði.
„Ég hef lengið verið forvitin að baka úr brioche-deigi, vinsældir þess voru mestar fyrir svona tveimur árum og margir veitingastaðir skiptu hamborgarabrauðunum út hjá sér fyrir brioche-brauð t.d. Fyrir þá sem eru ekki kunnugir þessu deigi er þetta gerdeig gert með mjólk og smjöri og deiginu leyft að hefast í kæli. Brauðið á uppruna sinn í Frakklandi, sem gerir það sjálfkrafa að sælkeramat, ekki satt? Það er svo mjúkt og dásamlegt að vinna með það,“ segir Guðrún Ýr um uppskriftina sem við hvetjum ykkur til að prófa.
Brioche-deig
Aðferð:
Hrærið saman egg, sykur og salt. Mælið mjólkina og hitið í örbylgjuofni eða í potti þangað til hún er orðin volg. Blandið gerinu við deigið ásamt mjólkinni og hrærið létt saman, sama á við um smjörið; bræðið það og setjið út í deigið. Skiptið yfir í krók á vélinni.
Vigtið hveitið saman við og hrærið örlítið saman með króknum í höndunum svo það fari ekki út um allt þegar þið setjið hrærivélina af stað. Hrærið í góðar fimm mínútur og eðlilegt er að deigið klífi aðeins upp krókinn.
Látið deigið í skál sem kemst í ísskápinn hjá ykkur og setjið plastfilmu þétt upp að deiginu og leyfið að hefast í minnst þrjár klukkustundir, gott er að gera það að kvöldi og leyfa því að hefast yfir nótt.
Fylling
Aðferð:
Bræðið smjör og blandið hinum hráefnunum saman og hrærið vel saman.
Samsetning
Takið deigið úr kæli og setjið á hveitistráð borð. Fletjið deigið út þannig að það sé u.þ.b. 15 cm á breidd og 40 cm á lengd. Dreifið fyllingunni jafnt yfir deigið og dreifið hvítu súkkulaði, pekanhnetum og karamellu yfir. Rúllið deiginu þétt upp, styttri hliðinni. Gott er að mæla snúðana áður en þeir eru skornir svo þeir séu jafnir. Mælið 5 cm á hvern snúð en þannig ættu að koma 10 snúðar úr uppskriftinni. Ég setti snúðana í eitt 23 cm form og eitt 15 cm form og það kom vel út. Einnig hægt að setja í eldfast mót. Setjið bökunarpappír í botninn og spreyið yfir með PAM-spreyi. Skerið snúðana og raðið þeim í form með u.þ.b. 1 cm millibili. Setjið plastfilmu yfir formin og leyfið snúðunum að hefast í u.þ.b. klst.
Stillið ofn á 160°C, blástur. Setjið formin með snúðunum inn í ofn en gott er að hylja þau fyrstu 20 mín. af bakstrinum svo snúðarnir verði ekki of dökkir. Lok eða plata sem þolir ofn er tilvalin. Leyfið þeim að bakast í 20 mín., takið þá lokið af og bakið í 25 mín. í viðbót. Gott er að stinga prjón á milli snúðanna eftir þann tíma til að athuga hvort þeir séu tilbúnir; ef prjónninn kemur hreinn út eru snúðarnir tilbúnir.
Leyfið snúðunum að hvíla í nokkrar mínútur í formunum áður en þeir eru teknir úr, ýrið karamellusósu yfir og að lokum slatta af flórsykri.