Svona nýtir þú borðstofuna best

Nokkur einföld ráð hvernig megi nýta plássið í borðstofunni sem …
Nokkur einföld ráð hvernig megi nýta plássið í borðstofunni sem best. mbl.is/Colourbox

Hér koma nokkur góð ráð um hvernig best sé að nýta lítil borðstofurými – til að fá pláss fyrir bæði gesti og geymslupláss.

Færðu borðið nær veggnum
Borðstofuborð þarf ekki alltaf að standa í miðju rými, því þú getur líka komið því fyrir nær veggnum. Þá með stólum öðrum megin og bekk upp að veggnum. Þannig sparar þú pláss í stað þess að vera með stóla báðum megin sem þú þarft að draga fram og til baka. Og bekkurinn verður ákveðið skraut út af fyrir sig. Ef þú hefur þörf fyrir meira geymslupláss, þá skaltu kaupa bekk með geymsluhólfi undir dúka, matreiðslubækur og annað tilheyrandi dót.

Nýttu hæðina
Í litlum rýmum er gott að nýta hæðina en á sama tíma skaltu takmarka stórar mublur þar sem þær fylla meira og fá rýmið til að virka minna. Sniðugt er að setja hillur á vegginn sem virka léttar, eða einn háan glerskáp sem geymir allt leirtau og glös sem tilheyra borðstofunni.

Sparaðu pláss með réttu stólunum
Þegar þú innréttar borðstofuna skaltu hugsa út í borðstofustólana. Þú getur sparað pláss með því að velja réttu stólana! Ef plássið er ekki stórt skaltu velja stóla sem þú getur auðveldlega ýtt undir borðið þegar þeir eru ekki í notkun. Því eru stólar sem eru ekki með örmum fullkominn kostur í þessu tilviki.

Minnkaðu dótið á gólfinu
Jafnvel þó að pottaplöntur, smart gólflampi eða barborð sé draumurinn – þá passar það ekki endilega inn í litlar borðstofur. Hér er aðalmálið að nýta gólfplássið sem best og þá nýtum við veggina undir myndir og skrautmuni og hengjum jafnvel plöntur í hengipotta úr loftinu.

Afmarkaðu plássið
Notaðu mottu undir borðstofuborðið til að afmarka plássið enn frekar sem borðstofan tekur og allt annað í kring mun virka stærra.

Veldu ljósa liti
Það mun hjálpa til í litlu rými að velja ljós og létt húsgögn. Ljós viðarhúsgögn, hvítmáluð eða jafnvel í pastellitum væri fullkomin lausn.

Settu borðstofuborðið nær veggnum og notaðu bekki til að nýta …
Settu borðstofuborðið nær veggnum og notaðu bekki til að nýta plássið sem best. mbl.is/©Frederikke Heiberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert