Samkvæmt nýrri rannsókn virðast kaffþyrstir lifa lengur en aðrir, því getur þú alveg áhyggjulaust notið kaffibollans án þess að hugsa meira út í það.
Það eru eflaust einhverjir strangheiðarlegir kaffidrykkjumenn þarna úti sem finnast þeir þurfa að draga örlítið úr neyslunni – en það er algjör óþarfi. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á 500 þúsund Englendingum lifir þú lengur á kaffidrykkju. Og þá er alveg sama hvernig kaffið er bruggað, hvort það innihaldi koffín eða ekki. Frá þessu greinir fagtímaritið JAMA Internal Medicine.
Betra minni
Þú lifir ekki bara lengur með kaffinu, því einhverjir spekingar vilja meina að við öðlumst betra minni. Því er ráðlagt fyrir háskólanema að drekka tvo bolla af kaffi strax eftir að hafa lesið námsefnið. Samkvæmt tímaritinu Nature Neuroscience veitir koffín í kaffi líka auka orku til að takast á við krefjandi verkefni. Kaffi inniheldur einnig mörg önnur efni sem eru góð fyrir líkamann, þar á meðal bólgueyðandi efni.
Þrír til fjórir bollar af kaffi yfir daginn er í góðu lagi hjá fullorðnum, þó að ófrískar konur ættu ekki að drekka nema um helminginn af þessum skammti. Þrír til fjórir bollar samsvara um 400 mg af koffíni, en margir drekka jafnvel meira en það yfir daginn. Þetta þýðir samt ekki að þú eigir að byrja að drekka kaffi til að halda heilsunni! Þá er mun betri kostur að fara í langa göngutúra eða borða stóra skammta af grænmeti. En ef þú vilt drekka kaffi skaltu njóta þess og þeirra jákvæðu ávinninga sem drykkja þess hefur í för með sér.
Svefnleysi og höfuðverkur
Of mikið af koffíni getur þó valdið svefnleysi, eirðarleysi, hjartsláttaróþægindum, pirringi og kvíða. Þú getur einnig orðið háður koffíni og finnur áhrifin í höfuðverk, eirðarleysi og þreytu ef þú færð ekki koffín. Ef þú vilt komast út úr þeim vítahring skaltu minnka kaffibollana niður í einn bolla á dag – þá ættir þú að losna við óþægindin. Sumir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir koffíni sem getur brotist út eins og kvíðakast.