Starbucks-keðjan hefur opnaði aftur eftir að hafa lokað fleiri hundruð stöðum vegna kórónuveirunnar. Nú standa yfir breytingar hjá fyrirtækinu þar sem viðskiptavinir munu sjá meira af stafrænni upplifun.
Fyrirtækið tilkynnti nú á dögunum að á næstu 18 mánuðum munu umfangsmiklar breytingar standa yfir. Samkvæmt yfirlýsingu frá forstjóra Starbucks, Kevin Johnson, felur tillagan í sér að loka um 400 verslunum og opna 300 nýjar í staðinn – þar sem áherslan er sniðin að þörfum viðskiptavinarins eftir heimsfaraldurinn.
Í stórborgum eins og New York, Chicago, Seattle og San Francisco munu viðskiptavinir sjá meira af Starbucks „Pick-up“ stöðum. Þannig er viðskiptavinum gert kleift að panta, borga með þar til gerðu appi í símanum og mæta á staðinn til að sækja pantanirnar sínar. Í úthverfum mun fyrirtækið fjölga verslunum sem bjóða upp á stoppistöðvar og fjöldi annarra verslana mun eingöngu bjóða upp á slíka þjónustu. Vörukeðjan mun halda áfram að þróa og auka framboð af nýjum lausnum sem þessum – jafnvel með bílalúgum og þá með tveimur akreinum eða lúgu þar sem gangandi vegfarendur geta stoppað og pantað sér uppáhaldskaffibollann.