Nú munu hjörtu einhverra fagurkera slá örlítið hraðar – því eitt fallegasta húsbúnaðarfyrirtæki samtímans var að opna stórglæsilega verslun/heimili og þú ert velkomin/n.
Hinn 19. júní síðastliðinn opnaði Ferm Living dyrnar að splunkunýju sýningarrými í guðdómlega fallegu og sögulegu húsi í Kaupmannahöfn. Á einum 450 fermetrum getur þú skoðað og keypt alla vörulínuna frá Ferm – sérvaldar plöntur sem eru ómissandi inn á hvert heimili, listabækur og aðra smáhluti.
Húsið stendur á myndrænum stað þar sem húsbátar liggja við kanalinn í frjálshyggjuhverfinu Kristjaníu. Húsið, sem byggt var á 18. öld, er nú endurgert og hýsir bæði sýningarrýmið og skrifstofur fyrirtækisins þar sem hönnuðir Ferm Living gera tilraunir með nýjar hugmyndir og prófa nýjungar fyrir neytendur sem eru einungis einu skrefi frá.
Stofnandi og eigandi fyrirtækisins, Trine Andersen, segir þetta vera spennandi tímamót fyrir Ferm Living. Það hafi alltaf verið draumur og markmið hjá þeim að geta opnað rými þar sem almenningi er velkomið að njóta og skoða „heimili þeirra“. Og að geta boðið upp á það á sögulegum stað í höfuðborginni sé þeim afar kært og spennandi.
Þeir sem eiga leið um Kaupmannahöfn og hafa gaman af fallegri hönnun geta heimsótt Ferm Living á Kuglegårdsvej 1-5, 1424 Kaupmannahöfn K.