Litrík og falleg matarveisla í boði Snorra Guðmunds hjá Matur og myndir – þar sem bragðlaukarnir fara í ferðalag til Mið-Austurlanda.
„Ég elda afskaplega oft rétti í líkindum við þennan fyrir okkur fjölskylduna og vel þá helst skinn og beinlaus kjúklingalæri, en mér þykja þau bragðbest ásamt því að þau þola betur að vera bökuð aðeins lengur en td kjúklingabringur þar sem þau eru fitumeiri og verða síður þurr áður en þau eru orðin fallega brúnuð“, segir Snorri.
Mið-Austurlensk veisla í boði Snorra (fyrir 2)
- 500 g kjúklingalæri (skinn & beinlaus)
- 10 g shawarma krydd, 10 g / Kryddhúsið
- 120 ml bulgur
- 10 g kóríander
- 15 g steinselja
- ¼ stk. lítill rauðlaukur,
- 25 g pistasíuhnetur
- 30 g granateplafræ
- 30 g fetaostur í kryddlegi
- 60 g grísk jógúrt
- 60 g majónes
- 1 tsk. sykur
- 1 msk. borðedik
- ½ tsk. sítrónusafi
- 2 g hvítlaukur
- Salt & pipar
Aðferð:
- Setjið kjúklingalæri í skál ásamt shawarma kryddi og um ½ tsk af flögusalti. Blandið vel saman og látið marinerast í amk 1 klst.
- Stillið ofn á 180° með blæstri. Dreifið kjúklingalærunum yfir ofnpötu með bökunarpappír og bakið í 30 mín í miðjum ofni.
- Hrærið saman grískri jógúrt, majónesi, sítrónusafa, sykur og ediki. Saxið 5 g af steinselju og pressið hvítlauk og hrærið saman við sósuna. Smakkið til með salti og ríflegu magni af svörtum pipar.
- Sjóðið bulgur eftir leiðbeiningum á pakka og færið svo í skál.
- Saxið kóríander, restina af steinselju, pistasíuhnetur og rauðlauk. Hrærið saman við bulgur ásamt granateplafræjum og fetaosti. Smakkið til með salti.
- Berið fram með naan brauði og fersku salati.