Fáránlega gott Mexíkó-lasagna

Mögulega besta mexíkóska lasagnað til þessa.
Mögulega besta mexíkóska lasagnað til þessa. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Má maður taka svo til orða á opnum og virtum vefmiðli? En við fáum ekki leið á mexíkóskum mat og þökk sé þessari uppskrift er það alls ekkert að fara breytast. 

Hér býður Hildur Rut okkur upp á mexíkóskt lasagna af bestu gerð.


Mig hefur alltaf langað til að prófa að gera mexíkóskt lasagna og gerði loksins mína útfærslu en mexíkóskur matur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég notaði hefðbundnar ítalskar lasagnaplötur frá ítalska merkinu De Cecco (fæst í Nettó og Fjarðarkaupum) sem mér finnst mjög góðar. Í þessu lasagna er nautahakk, salsasósa, kotasæla, rjómaostur, cheddarostur og ferskur maís. Toppaði það svo með avókdósalsa, ferskum maís, fetaosti og kóríander. Þetta er vægast sagt gott og súper djúsí! Mæli með að gera þetta um helginaׅ,“ segir Hildur Rut.

Lasagna á mexíkóska vísu (fyrir 4)

  • 600 g nautahakk (eða vegan hakk)
  • ólífulía
  • 1 laukur, smátt skorinn
  • 2 hvítlauksrif
  • chili explosion
  • paprikukrydd
  • salt og pipar
  • 230 g salsasósa (ein krukka)
  • De Cecco-lasagnaplötur
  • 500 g kotasæla (ein stór pakkning)
  • 250 g Philadelphia-rjómaostur (ein pakkning)
  • 4 dl rifinn cheddarostur
  • 1 ferskur maískólfur
  • 1 msk smjör
  • 1 dl stappaður fetakubbur
  • cayennepipar
  • kóríander eftir smekk, smátt saxað

Avókadósalsa

  • 2 avókadó
  • 10 kokteiltómatar
  • safi úr ½ límónu
  • 1 msk kóríander, smátt saxað

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera laufblöðin af maískólfinum með því að skera af efsta hlutann af (þar sem hann er minnstur um sig) og flettið laufblöðunum af honum.
  2. Leggið maískólfinn í eldfast mót, dreifið smjörinu ofan á og bakið í 30 mínútur við 190°C. Skerið eða skafið maísinn af maískólfinum og skiptið í þrjá hluta.
  3. Steikið laukinn upp úr ólífuolíu við vægan hita. Þegar hann er búinn að mýkjast þá bætið þið við nautahakkinu og pressið hvítlauksrifin út í og kryddið. Hellið salsasósunni út í og hrærið.
  4. Blandið saman kotasælu og rjómaosti.
  5. Smyrjið eldfast mót (ég notaði steypujárnspönnu) með ólífuolíu og setjið til skiptis lasagnaplötur, hakkið, ostablönduna, rifinn cheddarost og maís. Þið ættuð að ná þremur lögum ef þið notið álíka stórt mót og ég. Ath. ekki setja maís ofan á lasagna í lokin.
  6. Bakið lasagnað í 20-25 mínútur við 190°C með blæstri.
  7. Blandið saman ⅓ af maísnum, stöppuðum fetakubbi og cayennepipar.
  8. Avókadósalsa: Skerið avókadó, tómata og kóríander smátt. Blandið öllu saman og kreistið límónu yfir.
  9. Þegar lasagnað er tilbúið þá toppið þið það með avókadósalsa, maís- og fetablöndunni og ferskum kóríander.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert