Lúxusfiskur með mangó chutney og rjómaosti

Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Hér erum við með dásamlegan fiskrétt frá Helenu Gunnars sem heldur úti matarblogginu Eldhúsperlur Helenu. Þessi réttur passar við öll tilefni og er dásamlegur í alla staði.

Lúxusfiskur með eplum, mangó chutney og rjómaosti (fyrir 3-4)

  • 600 gr ýsa, þorskur eða annar hvítur fiskur skorinn í bita
  • 2 dl rækjur (má sleppa)
  • 2 gulrætur
  • 1 púrrulaukur
  • 1 rauð og 1 græn paprika
  • 1 grænt epli
  • 2 msk smjör
  • 2 tsk gott karríduft
  • 200 gr hreinn rjómaostur frá Gott í matinn
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1 dl mangóchutney
  • Rifinn bragðmikill ostur, t.d. Óðalsostur
  • Paprikuduft, salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið fiskinn í passlega bita og kryddið með salti og pipar, leggið til hliðar.
  2. Saxið grænmetið og eplið í frekar smáa bita.
  3. Hitið pönnu á meðalhita og bræðið smjörið. Steikið grænmetið í smjörinu þar til það mýkist aðeins (geymið eplabitana).
  4. Bætið karríduftinu saman við og steikið það með í 1-2 mínútur.
  5. Bætið rjómaostinum, sýrða rjómanum og mangó chutney út á pönnuna og bræðið þetta saman. (Þynnið með örlitlu vatni ef ykkur finnst þetta of þykkt, en athugið að það kemur líka vökvi úr fiskinum þegar hann eldast.)
  6. Dreifið eplunum og rækjunum yfir og hrærið saman.
  7. Smakkið til með salti og pipar. Leggið svo fiskinn ofan á sósuna og grænmetið og leyfið þessu að malla þar til fiskurinn er nánast eldaður í í gegn.
  8. Stráið þá osti yfir ásamt smá paprikudufti og stingið inn í ofn undir grill í 5 mínútur eða þar til osturinn er gullinnbrúnn.
  9. Stráið yfir saxaðri steinselju og berið fram með góðu salati og brauði eða hrísgrjónum.
Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert