Himneskt humarpasta sem gerir allt vitlaust

Sjúklega girnilegt humarpasta með haug af parmesan osti.
Sjúklega girnilegt humarpasta með haug af parmesan osti. mbl.is/Snorri Guðmundsson

Hér er á ferðinni einn sá allra besti pastaréttur sem hefur komið úr eldhúsinu hjá mér og þeir hafa sko verið ansi margir yfir tíðina,“ segir Snorri Guðmunds um þessa girnilegu pastauppskrift.

Hann Snorri er sko alls enginn nýgræðingur í eldhúsinu og býður hér upp á hvítlaukssteiktan humar í mildri rjóma- og hvítvínslagaðri pastasósu með ristuðum pankóraspi og nógu af parmesan. Hann segist nota spaghetti frá Tariello í þennan rétt, en það er örlítið þykkara en annað sambærilegt.

Himneskt humarpasta með ristuðum pankóraspi (fyrir 3-4)

  • 450 g humar
  • 300 g spaghetti, Tariello, fæst í Melabúðinni
  • 100 g laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sítróna
  • 400 g San Marzano-tómatar, fást í Melabúðinni
  • 30 ml tómatpúrra
  • 1 msk ítalskt sjávarréttakrydd, Pottagaldrar
  • 1 dl hvítvín
  • 0,5 dl rjómi
  • 1 dl Pankó-brauðraspur
  • ½ fiskiteningur, Knorr
  • ½ tómat- & jurtateningur, Kallo
  • 30 g parmesan
  • 20 g steinselja

Aðferð:

  1. Affrystið og þerrið humar.
  2. Setjið ríflegt magn af vatni í pott með smá salti og náið upp suðu.
  3. Ristið pankóbrauðrasp á heitri pönnu með smá olíu þar til raspurinn er farinn að taka gylltan lit. Pressið hvítlauksrif saman við og ristið áfram í stutta stund þar til allur raspurinn er fallega gyllltur en hrærið vel í á meðan svo ekkert brenni. Smakkið til með salti.
  4. Saxið lauk nokkuð smátt.
  5. Steikið humarinn upp úr smjöri og 1 pressuðu hvítlauksrifi í 2-3 mín eða þar til hann er rétt svo eldaður í gegn. Færið humarinn á disk og hyljið með álpappír.
  6. Hitið smá olíu í steypujárnspotti eða stórri pönnu og steikið saxaðan lauk við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið hvítlauksrif í pottinn og steikið áfram í 1 mín.
  7. Bætið tómatpúrru út í pottinn og steikið í nokkrar mín.
  8. Hækkið hitann á pottinum og bætið hvítvíni út í. Látið vínið sjóða niður um helming.
  9. Kremjið tómatana á milli fingra og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni. Bætið rjóma, ítölsku sjávarréttakryddi, 1/2 fiskiteningi og 1/2 tómat- & jurtateningi út í pottinn. Látið sósuna malla undir loki á meðan spaghetti er soðið.
  10. Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakka.
  11. Saxið steinselju smátt og rífið helminginn af parmesanostinum saman við sósuna og bætið við smjörklípu. Smakkið til með salti ef þarf.
  12. Sigtið vatnið frá spaghettíinu og bætið út í pottinn og veltið upp úr sósunni.
  13. Blandið humrinum ásamt vökvanum af diskinum og steinselju saman við spaghettíið og sósuna í pottinum og rífið afganginn af parmesanostinum yfir.
  14. Rífið sítrónubörk yfir réttinn (varist að taka hvíta undirlagið með) og berið fram með ristuðum pankó og góðu brauði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert