Fagurkerinn og stílistinn Þórunn Högnadóttir á afar smekklegt heimili og þar er pallurinn alls engin undantekning. Dóttir Þórunnar fékk sitt eigið útieldhús á pallinn sem er með því krúttlegra sem við höfum séð. Þær mæðgur sýsla mikið saman í eldhúsinu innandyra og leggur Leah Mist oftast nær á borðið, hrærir í pottum og pönnum og vill alltaf taka þátt í eldamennskunni.
Þegar blessuð kórónuveiran herjaði á heimsbyggðina sáu Þórunn og eiginmaður hennar, Brandur, að þau væru ekkert á leiðinni í ferðalag yfir hafið þetta árið. Þá réðust þau í það verkefni að smíða pall við húsið – rétt eins og svo margir aðrir Íslendingar sem tóku upp hamar og pensil og hreiðruðu betur um sig heima fyrir. Og fyrir hugmyndaríkan fagurkera, þá eru svona verkefni með þeim skemmtilegri.
„Maðurinn minn er einstaklega handlaginn og smíðaði pallinn eftir vinnu og um helgar. Draumurinn hefur alltaf verið að eignast stóran og þægilegan pall með notagildi. Og eins og gerist svo oft hjá mér, þá fæ ég fleiri og fleiri hugmyndir út frá einni hugmynd. Ég sá fyrir mér stórt borð og bekk við – og auðvitað græjaði Brandur það á núll einni. Ég sá síðan svo geggjaða hugmynd á Pinterest af útieldhúsi/grillaðstöðu sem við útfærðum eftir okkar hentisemi, en það var út frá þessu sem aðstaðan hennar Leuh Mistar varð til. Ég sýndi henni myndir af hugmyndinni og hún spurði strax hvort pabbi gæti gert svona fyrir hana. Við ákváðum því að framlengja pallinn og smíða svona mini-eldhús, þar sem hún elskar að leika sér við að búa til alls konar mat handa okkur – með blómum, sandi, grasi o.fl.“
Eldhúsið hennar Leuh Mistar er úr sama efniviði og pallurinn, sem þau lituðu í svörtum lit með pallaolíu frá Slippfélaginu, og í stíl við alla skjólveggina. En allt pallaefnið er frá Bauhaus. „Leah Mist er rosalega mikið fyrir bleikt og í sameiningu ákváðum við að nota mintugrænan og bleikan í bland. Nánast allir aukahlutir sem gera eldhúsið svona krúttlegt eru frá Søstrene Grene og IKEA. Ég bjó einnig til takkana á eldavélinni úr myllu-spilaplöttum og málaði. Hellurnar eru glasamottur úr IKEA og græni vaskurinn er lítill bali.“
Að lokum segir Þórunn okkur að pallurinn sé rúmgóður, þægilegur og kósí. Þegar þau grilla, þá borða þau úti og taka morgunkaffið um helgar ef veður leyfir. „Ég hugsa að ég gæti flutt þarna út, ég er svo ánægð með hann,“ segir Þórunn að lokum.