Pannan sem Evu Laufeyju vantaði í líf sitt

Ljósmynd/Eva Laufey

Eva Laufey hefur verið manna duglegst að galdra fram girnilegan mexíkóskan mat á þriðjudögum enda jafn heilagt á sumum heimilum og föstudagspítsan góða.

„Þessi panna er nákvæmlega það sem mig vantaði í líf mitt! Kjúklingur, stökkar tortillakökur, nóg af osti, rjómaostur og var ég búin að segja nóg af osti? Þið þurfið hreinlega að prófa þennan rétt sem allra fyrst,“ segir Eva Laufey um þennan girnilega rétt. 

Þið finnið skref-fyrir-skref-myndir á Instagram – finnið mig undir evalaufeykjaran.

Mexíkósk panna

*Uppskriftin miðast við fjóra

  • 600 g kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • 1 msk. ólífuolía
  • 3 msk. fajitas-krydd
  • salt og pipar
  • ½ laukur, skorinn í strimla
  • ½ rauð paprika, skorin í strimla
  • ½ græn paprika, skorin í strimla
  • 5 sveppir, smátt skornir
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 3 dl tómata-passata
  • ½ kjúklingateningur
  • 5 msk. rjómaostur
  • 1 dl maísbaunir
  • tortillavefjur
  • rifinn ostur, bæði pítsuostur og cheddar
  • lárperur
  • sýrður rjómi
  • kóríander

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn í 180°C.
  2. Hitið olíu á pönnu, helst pönnu sem þolir að fara inn í ofn.
  3. Steikið kjúklinginn upp úr olíu, kryddið til með fajitas-kryddi, salti og pipar. Bætið grænmetinu út á pönnuna og steikið áfram þar til mjúkt í gegn.
  4. Hellið tómata-passasta saman við og myljið kjúklingateninginn yfir.
  5. Blandið öllu vel saman og bætið rjómaostinum saman við í lokin. Lækkið hitann og leyfið réttinum að malla við vægan hita í 10 mínútur.
  6. Hellið kjúklingablöndunni í skál, raðið tortillavefjum í sömu pönnu en ef þið eruð ekki með pönnu sem þolir að fara í ofn þá notið þið eldfast mót. Fyllið pönnukökurnar með kjúklingafyllingunni og sáldrið rifnum osti yfir og magnið af ostinum fer eftir smekk. 
  7. Inn í ofn við 180°C í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.
Ljósmynd/Eva Laufey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert