Hér er hin eina sanna og snjalla lausn á því hvernig þú kemst hjá því að þurfa að þrífa samlokugrillið eftir hverja notkun.
Samlokugrillið – græjan í eldhúsinu sem fleytir okkur svo langt á erfiðum dögum þegar enginn á heimilinu nennir að elda. Þá jafnast ekkert á við grillaðar samlokur á alla fjölskylduna. En slíkt kostar okkur þó þrif á grillinu eftir að osturinn, sósan og önnur hráefni eiga það til að festast á grillinu. Og þetta nennir enginn að þrífa! En skítugt samlokugrill er alls ekki girnilegt.
Besta ráðið til að sleppa við öll þrif, er einfaldlega að setja samlokurnar í bökunarpappír og skella þeim á samlokugrillið - þannig mun allt leka og klístrast í pappírinn. Og það besta er, að þú getur notað pappírinn aftur og aftur á meðan þú grillar allar samlokurnar fyrir fjölskylduna.