Hann er stelsjúkur! Það er eina orðið sem eigendur Thomas geta sagt um köttinn sinn sem stelur öllu steini léttara.
Thomas er tíu ára gamall og býr í Kilmarnock – og hefur mjög skuggalegan feril! Sokkar og buxur frá nágrönnunum eða brauðhleifar og pítabrauð úr versluninni á horninu, eru á meðal þess sem kötturinn Thomas dregur með sér heim á daginn. En Fiona Lewis, eigandi kattarins hefur varað alla við í hverfinu því kötturinn kemur sífellt heim með nýja hluti sem hann hefur nappað á leið sinni yfir daginn.
Þessi árátta hjá Thomas virðist hafa vaxið því hann kemur daglega með eitthvað nýtt heim og færir húsráðendum sínum. Thomas virðist vera mjög hrifinn af sokkabuxum en hann hefur einnig komið heim með fiska sem hann veiddi í skrauttjörn í einum garðinum hjá góðum nágranna – þá einn og einn fisk í einu.
Fiona hefur opnað Instagram síðu til að halda utan um þjófnaðinn og á sama tíma geta aðrir kíkt þar inn og séð hvort það sé eitthvað sem þeir sakna. En kötturinn var svo kræfur um daginn að hann kom heim með níu pör af sokkabuxum á tveim dögum. Fiona er nokkuð viss um að Thomas sé athyglissjúkur eftir að þau lofuðu honum bak og fyrir þegar hann færði þeim hluti er hann var yngri.