Hann er tyrkneskur að uppruna og er einn þekktasti kokkur heims fyrir það eitt hvernig hann saltar matinn. Megum við kynna Salt Bae!
Hans rétta nafn er Nusret Gökçe, en slátrarinn, kokkurinn og veitingahúsaeigandinn gengur þó undir nafninu Salt Bae. Nafnið er ekki til komið upp úr þurru því það kemur einfaldlega frá því hvernig þessi meistarakokkur fer að því að salta matinn. Hér erum við að tala um takta sem ekki allir eiga auðvelt með að herma eftir. Hann varð heimsþekktur eftir nokkur myndbönd sem fóru í loftið árið 2017 og sýna hvernig hann sker kjöt og saltar það svo – en slíka tækni sjáum við ekki oft í stóreldhúsum landsins, og þótt víðar væri leitað.
Það fer þó misjöfnum sögum af því hversu ánægt fólk er með matinn á veitingahúsunum hans. Í nóvember í fyrra sakaði svo starfsfólkið hann um að taka hluta af þjórfénu sem það fékk. Við getum þó skemmt okkur og heillast af þessum myndböndum þó að við gerum ekki mikið annað.