Hrikalega góðir stökkir kjúklingabitar í spæsí kóreskri sósu

Frábær kjúklingaréttur í boði Snorra hjá Matur og myndir.
Frábær kjúklingaréttur í boði Snorra hjá Matur og myndir. mbl.is/Snorri Guðmundsson

Stundum eru réttir sem þessir, hrein nauðsyn á vikumatseðilinn. Stökkir djúpsteiktir kjúklingabitar í ómótstæðilegri spæsí kóreskri sósu – sem er langtum betri en nokkur skyndibiti að sögn Snorra hjá Matur og myndir.

„Ég er ekki frá því að þetta sé með því betra sem hefur nokkurntíman komið úr eldhúsinu hérna í Laugardalnum en ef þú ert eins og ég sem hefur dálæti á kóreskum og spicy mat þá er þetta  uppskrift sem þú mátt ekki láta framhjá þér fara,“ segir Snorri.

Stökkir kjúklingabitar í spæsí kóreskri sósu (fyrir 4)

  • Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 900 g
  • Maizea (maíssterkja), 90 g
  • Gochujang, 60 g / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi
  • Hoisin sósa, 40 g
  • Hrísgrjónaedik, 25 g
  • Sojasósa, 30 g
  • Sesamolía, 20 g
  • Hlynsýróp, 35 g
  • Engifermauk, 10 g / ég notaði Blue Dragon
  • Sesamfræ, 3 msk
  • Hvítlaukur, 2 rif
  • Rauð paprika, 1 stk
  • Vorlaukur, 2 stk
  • Kóríander, 10 g

Aðferð:

  1. Skerið hvert kjúklingalæri í 6 jafn stóra bita.
  2. Setjið maizenna í stóra skál og bragðbætið með salti.
  3. Hrærið vandlega saman gochujang, hoisin sósu, hrísgrjónaedik, sojasósu, sesamolíu, hlynsýrópi, engifermauki, 2 msk af sesamfræjum og 2 msk af maizenna blöndunni.
  4. Skerið papriku í bita og sneiðið vorlauk. Geymið grænasta partinn af vorlauknum til að strá yfir réttinn.
  5. Hitið nægilegt magn til þess að hylja kjúklinginn af hitaþolinni olíu upp í 180°C. Best er að nota djúpsteikingarpott eða þá djúpan pott ásamt hitamæli (farið varlega í kringum heita olíu!).
  6. Þetta skref er best að gera í nokkrum pörtum svo kjúklingurinn steikist sem best. Veltið kjúklingabitunum upp úr maizennablöndunni, hristið aðeins af þeim og steikið í heitri olíunni í 4-5 mín eða þar til bitarnir eru fallega gylltir og eldaðir í gegn. Fjarlægið kjúklinginn úr heitri olíunni og leggið til þerris á eldhúspappír á meðan restin af kjúklingnum er steiktur. Endurtakið þar til allur kjúklingurinn er steiktur.
  7. Hitið olíu á stórri pönnu við meðalháan hita og steikið papriku og vorlauk (munið að geyma grænasta partinn) þar til paprikan fer aðeins að mýkjast. Pressið hvítlauk út á pönnuna og steikið í smástund. Bætið sósunni út á pönnuna ásamt 0,5 dl af vatni og látið malla vel í þar til sósan fer að þykkjast (ef sósan þykkist of mikið má bæta við ögn meira af vatni).
  8. Bætið steikta kjúklingnum út á pönnuna og veltið upp úr sósunni þar til allir bitarnir eru vel þaktir sósu. Stráið 1 msk af sesamfræjum yfir ásamt söxuðum vorlauk. Saxið kóríander smátt og stráið yfir réttinn rétt áður en maturinn er borinn fram.
  9. Berið fram með hrísgrjónum og salati.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka