Það eru eflaust margir sem skelltu sér í berjamó þetta árið, enda voru berin með þeim betri í ár. Hér er yndisaukandi uppskrift að bláberjamúffum með krönsi sem slær í gegn. En það er Guðrún Ýr hjá Döðlum og smjöri sem á heiðurinn að uppskriftinni.
„Það var tíndur slatti af berjum á þessum bæ en þau fengu að fara í muffins og svo í frystinn, þá er alltaf hægt að taka frosin ber og búa til eitthvert gúmmelaði úr þeim allt árið um kring. Ég nýt þess eiginlega frekar heldur en að eiga fulla skápa af sultu. Skella þeim í boost og kökur er eitthvað sem hljómar betur og svo sníki ég bara eina og eina krukku hjá ömmu í staðinn,“ segir Guðrún Ýr.
Bláberjamúffur sem slá í gegn
Kröns
- 150 g sykur
- 100 g hveiti
- 55 g smjör
- 1 msk. vatn
- 1 tsk. kanill
- Vigtið öll hráefnin og setjið saman í skál. Blandið saman með höndunum og geymið í kæli meðan muffins-deigið er útbúið.
Muffins
- 250 g hveiti
- 100 g sykur
- 3 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. kanill
- örlítið salt
- 110 g smjör
- 250 ml mjólk
- 1 egg
- 200 g bláber
Aðferð:
- Stillið ofn á 215°C. Blandið þurrefnunum saman í skál. Vigtið smjörið og setjið í pott, bræðið smjörið á miðlungshita. Blandið mjólk og eggi saman við smjörið. Setjið bláberin saman við þurrefnin og hrærið örlítið saman við. Hellið þá smjöri, mjólk og egginu saman við í nokkrum atrenum út í þurrefnin og hrærið varlega saman með sleikju.
- Finnið til muffins-form og setjið á ofnskúffu. Ef þið gerið stórar muffins dugar deigið í 12 stk. en í venjuleg muffins form 20 stk. (eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan). Fyllið formin upp að tveimur þriðju af formunum. Náið í krönsið inn í ísskáp og setjið u.þ.b. matskeið af því ofan á hverja köku.
- Færið plötuna inn í ofn fyrir miðju og bakið í 12-15 mín. eða þangað til prjónn kemur hreinn út. Lengja þarf tímann ef notuð eru stærri form.
- Leyfið þeim að kólna lítillega og njótið!