Það er fátt meira viðeigand á haustin en hægeldaðir lambaskankar. Ljúf matarlyktin leggst yfir heimilið og ærir bragðlaukana. Algjörlega fullkominn réttur!
Þessi uppskrift er úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is og ætti engan að svíkja.
Hægeldaðir lambaskankar
Fyrir 5-6 manns
Lambaskankar
- 5-6 lambaskankar (eftir stærð)
- 1 saxaður laukur
- 3 saxaðar gulrætur
- 3 rifin hvítlauksrif
- 140 g tómatpaste
- 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
- 600 ml nautasoð
- 3 greinar rósmarín
- 1 msk. ferskt timian
- 100 ml rauðvín
- Salt, pipar og lambakjötskrydd
- Ólífuolía til steikingar
- Smjör til steikingar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 175°C.
- Byrjið síðan á því að steikja skankana upp úr vel af matarolíu og krydda eftir smekk.
- Ég steikti þá í pottinum í tveimur hlutum, 3 og 3 í einu. Geymið þá síðan á disk á meðan þið útbúið sósuna.
- Bætið nú vænni klípu af smjöri í pottinn og steikið lauk og gulrætur á meðalhita í um 10 mínútur. Bætið hvítlauknum þá saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur.
- Blandið tómatpaste næst út á pönnuna og síðan hökkuðum tómötum, nautasoði, rósmaríngreinum og söxuðu timian (geymið rauðvínið þar til síðar).
- Leyfið þessu að malla stutta stund, bætið skönkunum aftur í pottinn, setjið lokið á og inn í ofn í 2 klukkustundir.
- Að þeim tíma liðnum má taka skankana varlega uppúr, bæta rauðvíninu í sósuna og hræra hana upp að nýju, leyfa henni að malla á hellunni í um 5 mínútur. Þá má setja skankana aftur útí og bera fram með kartöflumús.
Kartöflumús
- Um 1,2 kg kartöflur
- 30 g smjör
- 150 ml mjólk
- 80 ml rjómi
- 1 msk. sykur
- Salt, pipar og timian eftir smekk
- Rifinn parmesan, sé þess óskað
- Sjóðið kartöflurnar og takið annað hráefni til.
- Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar má flysja þær og setja í góðan pott við lágan hita.
- Ég notaði kartöflustappara en það er líka hægt að setja vel soðnar kartöflur í hrærivél og gera þetta þar.
- Stappið saman kartöflur og önnur hráefni. Kryddið til eftir smekk og gott er að rífa parmesanost, bæði saman við músina og aftur yfir hana sé þess óskað.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir