Æðislegur kokteill með djúpu, notalegu og haustlegu ívafi

Ljósmynd/Linda Ben

Hér erum við með kokteil sem er einstaklega einfaldur og lekker. Hann kemur frá Lindu Ben. sem segir að afar einfalt sé að búa til sykursírópið fyrir drykkinn. Það eina sem þurfi sé að setja jöfn hlutföll af vatni og sykri í pott, hita þar til sykurinn sé bráðnaður og þá sé blöndunni hellt í flösku og hún geymd í kæli. Allir kokteilaðdáendur ættu að eiga slíkt í ísskápnum.

„Annars er þetta, eins og svo margir aðrir kokteilar sem ég geri, afar einfaldur kokteill, en nýkreisti appelsínusafinn gerir hann einstaklega fágaðan og góðan. Ég hvet þig til þess að skeyta glösin með einhverju fallegu eins og til dæmis ferskum blómum. Ég nota pínulitlar klemmur (líta út eins og dúkkuþvottaklemmur) til að festa blómin á glösin en ég kaupi þær til dæmis í Söstrene Grene,“ segir Linda.

Whiskey Crush-kokteill

  • 30 ml viskí
  • 30 ml Cointreau
  • safi úr 1 appelsínu
  • safi úr 1/4 sítrónu
  • 15 ml einfalt sykursíróp
  • klakar

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í kokteilhristara, kreistið safann út appelsínunni og sítrónunni ofan í hristarann ásamt fullt af klaka og hristið þar til drykkurinn er byrjaður að freyða. Hellið í kokteilglös.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert