Það eru eflaust margir sem eru að vinna heima þessa dagana – jafnvel einhverjir í sóttkví. Ef þú ert ein/n af þeim, þá eru þetta skilaboð sem gott er að hafa bak við eyrað því ekkert er jafn freistandi og að snarla þegar við erum heima allan daginn.
Vertu í núinu
Því meira sem við erum heima, því meira snörlum við. Og vesenið í kringum allt þetta snarlát er að við hættum að vera meðvituð um hvað við erum að fá okkur og grípum bara það næsta sem við sjáum í skápunum. Þá er mikilvægt að kveikja á núvitundarkerfinu í okkur og vera „á staðnum“ þegar þú borðar. Njóttu augnabliksins sem þú gefur sjálfum þér í að fóðra líkamann og því meira sem þú ert vakandi yfir því sem þú borðar, því oftar nærðu að leiða hugann frá því að narta í óhollustu.
Ekki kaupa inn á fastandi maga
Til að forðast það að enda með stútfulla matarkörfu af kexpökkum og snakki skaltu ekki fara svangur í búðina. Matvöruverslanir eru fullar af freistingum sem þú lætur eftir þér þegar þú finnur fyrir hungri.
Einbeittu þér að því að kaupa kolvetni eins og heilkorn, grænmeti, baunir, brún hrísgrjón, kínóa, epli, ber og banana, þar sem sykurinn seytlar hægt í líkamanum yfir daginn og heldur þér mettum lengur.
Það er gott að snarla mat sem inniheldur tryptófan
Engar áhyggjur – við höfum heldur ekki hugmynd um hvað tryptófan er! En að mati næringarfræðinga er það ómissandi amínósýra sem mun hjálpa líkamanum að búa til prótín og efni fyrir heilann sem breytast í serótónín, en það stjórnar skapi og hjálpar til við svefn. Matur sem inniheldur amínósýruna er m.a. lax, hnetur, fræ og egg. Allt frábær snarlmatur.
Notaðu heilnæmar uppskriftir
Stundum er talað um að ef þú eldar „almennilegan mat“ þá sé algjör óþarfi að snarla. Næringarfræðingar mæla með að þú byrjir að vinna með þær uppskriftir sem þig hefur alltaf langað til að prófa og leggja „almennilegan mat“ á borðið fyrir fjölskylduna. Ef þú ert ein/n er upplagt að eiga afganga eða setja í frysti og eiga þar til seinna. Ef þú borðar prótín á hverjum degi mun snarllöngunin sefast.
Drekka – drekka – drekka
Hér erum við ekki að hvetja þig áfram í vínflöskuna (þó að eitt og eitt glas sé í góðu lagi). Því jurtate og vatn er gott fyrir þig í stað snarl-áts. Maginn fyllist við það að drekka vatn og vatnið gerir okkur bara gott.