Hefur þú farið í brúðkaup þar sem maturinn var alls ekki það sem þú bjóst við? Hér er eitt dæmi um slíkt brúðkaup.
Eitt það besta við brúðkaup er góður matur, fyrir utan athöfnina sjálfa, ræðurnar og trylltu danssporin sem dynja á dansgólfinu síðar um kvöldið. Maturinn er oftast það sem tengir fólk saman til að hefja samræður hvert við annað – og til að stilla magann af fyrir drykki kvöldsins.
Ljúffeng máltíð er í það minnsta það sem fólk vonast eftir á kvöldi sem þessu, og því er engin furða að gestir í ákveðnu brúðkaupi hafi orðið undrandi yfir máltíðinni sem var borin á borð. Myndir sem gengu á samfélagsmiðlum eftir brúðkaupið sýndu máltíð sem ætti heima í nestisboxi hjá skólabarni að sögn gesta. Ein af brúðarmeyjunum gat í það minnsta ekki setið á sér og deildi mynd sem sýndi hálft croissant, ávexti á spjóti, grænmeti í bolla og flögupoka. Fólk var ekki lengi að kasta sér út á kommentakerfið þar sem einhver sagðist hafa gefið barninu sínu svipað að borða í hádeginu fyrir utan snakkpokann, og annar spurði hvort brúðhjónin hefðu ekki getað splæst í samloku.
Kannski var léttur hádegismatur allt sem brúðhjónin gátu boðið gestum sínum upp á, og það ætti ekki að stoppa þau í því að fagna ástinni umkringd fjölskyldu og vinum. Hver elskar ekki gott croissant og saltað snakk?